„Það hefur aðeins dregið úr vindinum frá því í dag en það hvessir aftur með kvöldinu,“ sagði Þorsteinn V. Jónsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Mikill vindur hefur verið á vestanverðu landinu og úrhellisrigning.
„Í kvöld verður enn þá hvassara á Snæfellsnesi um miðnætti en var í dag. Líka við Reykjanesskagann og í bænum,“ bætti Þorsteinn við en hviðurnar við Ólafsvíkurhöfn fóru upp í 36 metra á sekúndu í morgun.
Versta veðrið þessa stundina er á norðanverðu Snæfellsnesi. „Þar er alveg glórulaust veður og verður enn þá glórulausara seint í kvöld.“
Frétt mbl.is: Versti stormurinn ókominn
Einnig fer að hvessa norðanlands í kvöld en þar er búist við miklum vindi fram undir hádegi. Búist er við því að það lægi vestanlands snemma í fyrramálið. Fólki er ráðlagt að vera ekkert á ferðinni að óþörfu í kvöld og nótt.
„Mannskapurinn er í viðbragðsstöðu eins og hann er vanur. Þetta er þriðji miðvikudagurinn í röð sem við fáum við sunnanhvell. Það kemur þá strengur hérna niður,“ sagði Halldór Sigurjónsson, björgunarsveitarmaður hjá björgunarsveitinni Lífsbjörg á Hellissandi, í samtali við mbl.is.
„Við erum ýmsu vanir en ekki öllu. Það er hávaðarok og rigning núna en búið er að háþrýstiþvo húsin hérna vegna vatnsveðurs í þrjár vikur,“ bætti Halldór við.