Vara við allt að 40 m/s hviðum

Rauði liturinn táknar töluverðan vindhraða sem nú er aðallega við …
Rauði liturinn táknar töluverðan vindhraða sem nú er aðallega við vestanvert landið. Skjáskot af Windytv.com

Djúp lægð suðvestur af landinu stjórnar veðrinu í  dag og er þegar farið að hvessa á vestanverðu landinu. Elín Björg Jónasdóttir, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir veðrið ná ákveðnu ákveðnu hámarki um hádegisbil í dag og að það muni eftir það haldast nokkuð stöðugt fram á kvöld, þegar hvessir aftur og bætir í.

Gera má ráð fyrir að fyrir að hviður geti orðið allt að 30-35 m/s þar sem verst er og nefnir Elín Björg Reykjanesbraut, svæðið undir Hafnarfjalli og norðanvert Snæfellsnes í þessu samhengi, en vindhraði verður annars á bilinu 15-23 m/s. Fólk er því varað við að vera á ferðinni með aftanívagna. 

Það hvessir hægar á norðanverðu landinu og þá verður ekki mjög hvasst á Austfjörðum og Suðausturlandi í dag. Þar mun þó einnig hvessa í nótt og verður mjög byljótt inni á fjörðunum.

„Um miðnætti snýst áttin síðan í hásunnan sem er vond átt fyrir höfuðborgarsvæðið, Reykjanesbrautina og Snæfellsnes,“ segir Elín Björg. Hún nefnir Vellina í Hafnarfirði, Álftanes, Skerjafjörð, Seltjarnarnes, Kjalarnesið og efri byggðir höfuðborgarsvæðisins sérstaklega í þessu samhengi og segir fulla ástæðu til að huga að lausamunum, þar sem vindhraði verður allt frá 20 og upp í 28 m/s.

„Vindhraði getur síðan náð upp undir 40 m/s á þekktum hviðustöðum eins og á norðanverðu Snæfellsnesi. Það verður líka verður bálhvasst til fjalla og á Tröllaskaganum í nótt. Þar verður mjög vont veður.“

Töluverð úrkoma verður lægðinni samferða sunnan og vestan til á landinu, en þurrt verður að megninu þurrt norðan til. „Fyrsta gusan kom í nótt og síðan mun bæta í með morgninum og rigna eftir það meira og minna í allan dag.“

Veðurvefur mbl.is

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert