Birtir skýrslu vegna Suðurnesjalínu 2

Landsnet segir Suðurnesjalínu 2 vera lið í styrkingu meginflutningskerfisins.
Landsnet segir Suðurnesjalínu 2 vera lið í styrkingu meginflutningskerfisins. mbl.is/Einar Falur

Landsnet hefur látið vinna skýrslu þar sem kostir sem hafa verið til umræðu við lagningu Suðurnesjalínu 2 milli Hafnarfjarðar og tengivirkis við Rauðamel á Reykjanesi eru tilgreindir og bornir saman. Um þrjá meginkosti er að ræða, einn kost sem gerir ráð fyrir loftlínu og tvo sem gera ráð fyrir jarðstreng.

Ítarleg gögn lögð fram 

Að því er kemur fram í tilkynningu frá Landsneti er Suðurnesjalína 2 liður í styrkingu meginflutningskerfisins til að mæta vaxandi þörf fyrir raforkuflutning á Suðurnesjum og kröfum um afhendingaröryggi.  Þar kemur fram að undirbúningur vegna Suðurnesjalínu 2 hafi staðið yfir í mörg ár og ítarleg gögn hafi verið lögð fram. Framkvæmdir við línuna hafi hins vegar tafist vegna ágreinings við eigendur jarða sem línan á að liggja um og nýlega féllu dómar í Hæstarétti vegna eignarnámsheimildar og leyfis Orkustofnunar.

Funduðu með fulltrúum landeigenda

„Niðurstaða Hæstaréttar vegna eignarnáms á jörðum í Vogum á Vatnsleysuströnd var að Landsnet hefði átt að gera nánari grein fyrir þeim kostum sem voru til umræðu meðal landeigenda. Í kjölfar dómsins höfum við brugðist við með því að funda með fulltrúum þeirra landeigenda sem aðild áttu að eignarnámsdómsmálum til að skilgreina þá kosti sem hafa verið til umræðu og í framhaldi af því létum við vinna valkostaskýrslu sem er ætlað að sýna, á hlutlægan og málefnalegan hátt og með sértækar kringumstæður Suðurnesjalínu 2 í huga, hvernig samjöfnuður loftlínu og jarðstrengja er,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, í tilkynningunni.

Engin afstaða

„Í skýrslunni  sem við leggjum fram í dag er ekki tekin afstaða til þess hvaða framkvæmdakostir eru tækir og viðunandi í skilningi fyrrnefndra dóma Hæstaréttar heldur er henni ætlað að vera það gagn sem stuðst verður við þegar sú ákvörðun verður tekin.“

Í tilkynningunni kemur fram að staðhættir á því svæði þar sem deilur hafa risið um umráð yfir landi geri erfitt um vik að notast við blandaðar leiðir, það er að segja setja raflínu í jörð þar sem landeigendur hafi ekki vilja veita umráð á landi undir loftlínu eða unað eignarnámsákvörðunum.

Hægt er að nálgast skýrsluna á vef Landsnets, ásamt myndbandi sem sýnir valkostina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert