Idalie, móðir Eldu Thorisson Faurelien, eiganda Café Haítí við Geirsgötu, á hús sem er eitt örfárra sem enn standa uppi í hverfi í suðurhluta höfuðborgar Haítí, Port au-Prince, eftir að fellibylurinn Matthew gekk þar yfir fyrir skömmu.
Móðir hennar var ekki ein þeirra sem slösuðust í fellibylnum en hún var stödd í Bandaríkjunum þar sem hún býr helming ársins en hinn helminginn býr hún á Haítí. Áður bjó hún um skeið á Íslandi með Eldu, sem flutti hingað til lands árið 2010 eftir að gríðarmikill jarðskjálfti reið yfir Haítí.
Að sögn Eldu eru bara fjögur hús eftirstandandi í hverfinu þar sem hús móður hennar er staðsett.
„Móðir mín býr þarna og nokkrir vinir. Það bjuggu áður kannski um 200 manns á þessu svæði,“ segir Elda, sem fékk sendar myndir af nokkrum húsum í hverfinu eftir að Matthew hafði farið þar um.
Hún er afar sorgmædd vegna ástandsins á Haítí og segir að mikill tími muni fara í að endurreisa samfélagið þar.
Að minnsta kosti 1,4 milljónir manna eru í sárri neyð á Haítí af völdum Matthews og að minnsta kosti 372 hafa látið lífið. Hjálpargögn hafa borist hægt á svæðið.
Elda ætlar að reyna hvað hún getur til að hjálpa íbúum Haítí og hefur verið í sambandi við fólk sem þar býr. Hún hvetur þá sem vilja veita hjálparhönd að hringja í hana eða ræða við hana á Café Haítí.