Skoða að áfrýja málinu til Hæstaréttar

Héraðsdómur talar í úrskurði sínum um þrjár mismunandi leiðir til …
Héraðsdómur talar í úrskurði sínum um þrjár mismunandi leiðir til að framfylgja banni á netaðgengi að svæðinu deildu og piratebay. mbl.is/Golli

Hringiðan skoðar nú að áfrýja til Hæstaréttar dómi héraðsdóms sem staðfesti lögbann á fjarskiptafélögin Símafélagið og Hringiðuna frá október 2015 við því að veita netaðgengi að vefsvæðunum deildu og piratebay ásamt lénum sem vísa á sömu svæði.

„Okkur finnst svolítið kjánalegt að dómurinn segi að þetta sé tæknilega ómögulegt, en að lögin segi annað og þess vegna sé dæmt eftir því,“ segir Ingvar Linnet, rekstrarstjóri Hringiðunnar.

„Dómstóllinn viðurkennir að þetta [lokun á netagengi] sé ekki hægt, en talar síðan um þrjár mismunandi leiðir til að framfylgja banninu.“ Tvær leiðanna eru að sögn Ingvars ekki svo flóknar en frekar gagnlausar. Þriðja leiðin, sem er sú eina sem raunverulega virkar, er mjög íþyngjandi og felst í eftirliti með því hvað allir gera á netinu.

Frétt mbl.is: Hagsmunir réttahafa vegi þyngra

Frétt mbl.is: Dómur tók undir tilgangsleysi lögbanns

Niðurstaða dómsins er að því er segir í yfirlýsingu frá Hringiðunni, „í raun óskiljanleg í ljósi þess að útfærsla lögbannsins geri netið óöruggara fyrir notendur allra íslenskra fjarskiptafélaga, því ekki sé mögulegt að uppfylla tæknilegar öryggiskröfur um örugga nafnaþjóna þegar verið er að beina umferð á rangan stað líkt og útfærslan hefur verið hér á landi.“

Ingvar segir e.t.v. erfitt að sýna fram á þetta fyrir dómstólum. „Það eru notendur sem fikta í netinu sínu til að komast framhjá lokunum sem orsakar síðan þjónustuleysi.“ Hann segir unglinginn á heimilinu sem er tölvufróðari en foreldrana vera klassískt dæmi. „Hann gerir það sem hann þarf til að komast inn á sínar síður, sem hefur það síðan í för með sér að foreldrarnir komast allt í einu ekki lengur inn á löglegu síðurnar sem þau ætluðu inn á. Þannig fer þetta að hafa neikvæð áhrif á algjörlega óskylda þjónustu.“

Auðvelt að komast framhjá lögbanninu

Þetta eru að hans sögn helstu áhrifin sem þeir hjá Hringiðunni verða varir við að lögbannið hafi. „Það er auðvelt að komast framhjá þessu lögbanni þannig að við höfum ekki orðið var við mikla breytingu á umferð,“ segir hann. „Þvert á móti, þá hefur vægi ólöglegra síða minnkað, en það hefur verið munstrið á heimsvísu og hefur meira að gera með uppgang Netflix og Spotify en lögbannið.“

Frétt mbl.is: Héraðsdómur staðfestir lögbann vegna deildu og piratebay

Lögbannið skapar líka vafasamt fordæmi að mati Hringiðunnar og þess vegna skoðar fyrirtækið nú að áfrýja dóminum. „Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er að þetta er gríðarlega kostnaðarsamt, málaferlin eru þegar orðin dýr og líkt og Símafélagið þá erum við með minni félögum,“ segir Ingvar.

Dómur héraðsdóms sé líka svolítið opin og því væri æskilegt að fá úrskurð Hæstaréttar. „Hvort sem maður verður sammála eða ósammála þeim dómi, þá væri gott að fá botn í mál sem er búið að vera í gangi í mörg ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert