Saksóknari í Aurum-málinu hefur í skýrslutöku yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og vitnaleiðslum yfir nokkrum fyrrverandi starfsmönnum eignarhaldsfélagsins Fons spurt um tengingar á milli Aurum-málsins og Stím-málsins. Spurði hann Jón Ásgeir meðal annars hvort að tapið af Stím-viðskiptunum hafi í raun ekki að lokum verið greitt með Aurum –viðskiptunum.
Vísaði saksóknari meðal annars til pósts frá Jóni Ásgeiri til Gunnars Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Baugs, þar sem hann sagði að Pálma Haraldssyni, fyrrverandi eiganda og forstjóra Fons, hafi verið lofað skaðleysi. Þá var einnig sýndur póstur þar sem Jón Ásgeir segir við viðskiptastjóra sinn hjá Glitni að Pálmi telji Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóra og einn ákærða í málinu, hafa svikið sig.
Í málinu er tekist á um hvort Lárus og annar starfsmaður Glitnis hafi gerst brotlegir um umboðssvik og Jón Ásgeir og viðskiptastjóri hans um hlutdeild í umboðssvikum þegar Glitnir lánaði félaginu FS38 6 milljarða í júlí árið 2008. Var fjárhæðin að hluta notuð til að kaupa hlut Fons í skartgripakeðjunni Aurum, en auk þess fór hluti til Fons og þaðan áfram til Jóns Ásgeirs. Þá var hluti lánsins notaður til að bæta tryggingarstöðu Fons við Glitni, en bankinn fékk með viðskiptunum veð í Aurum.
Í ákærunni segir að Jón Ásgeir hafi í krafti áhrifa sinna hvatt til þess að lánið yrði veitt, en Jón Ásgeir var í gegnum félög og tengda aðila á þessum tíma stór hluthafi í Glitni. Meðal gagna í þessu samhengi bar saksóknari undir Jón Ásgeir póst frá honum til Lárusar þegar unnið var að málinu. „Annars kannski best að ég verði starfandi stjórnarformaður GLB :)“ segir meðal annars í póstinum. Í öðrum pósti sem Lárus sendi til Jóns Sigurðssonar, varaformanns stjórnar Glitnis á þessum tíma, segir hann „Er ég rekinn“ í framhaldi af pósti sem Jón Ásgeir sendi á hann með yfirliti yfir málefni sem þyrfti að ráðast í.
Saksóknari spurði Jón Ásgeir hvort að hann hafi getað látið reka Lárus sem bankastjóra. Svaraði Jón Ásgeir því neitandi og sagði skipan mála á Íslandi þá að stjórn ráði og reki forstjóra. Spurði þá saksóknari hvort að Lárus hafi ekki þurft að óttast stöðu sína vegna póstanna og svaraði Jón Ásgeir því einnig neitandi.
Vísaði hann til þess að ef hann hefði verið í þeirri stöðu að geta sagt fólki innan bankans til um hvernig ætti að gera hlutina hefði Lárus væntanlega gert það strax, en á gögnum málsins megi sjá að málefni hans fóru í ákveðna ferla innan bankans eins og tíðkaðist með önnur mál.
Saksóknari spurði Jón Ásgeir einnig um tölupóst sem Bjarni Jóhannesson, viðskiptastjóri hans hjá Glitni, sendi honum um málefni Fons. Spurði hann meðal annars af hverju Jón Ásgeir hefði verið inn í þessum málefnum félags sem hann væri ekki í forsvari fyrir. Svaraði Jón því til að þetta hafi verið mál sem hafi ekki orðið að neinu og því skipti það ekki máli. Áður hafði hann svaraði því til að Baugur hafi oftast verið klúbb-fjárfestir og með forystuhlutverk. Það hafi meðal annars átt við mál tengd Fons.
Í pósti Jóns Ásgeirs til Gunnars sem vísað er í hér að ofan segir Jón að Pálmi hafi keypt skuldabréf af félagi sem Glitnir setti upp og verið lofað skaðleysi.
„Til að leysa málið án þess að PH tapi á þessu skuldabréfi er eftirfarandi,“ segir Jón og listar upp að Glitnir þurfi að kaupa Goldsmith (fyrra nafn á Aurum) á 6 milljarða og setja inn í sér félag. Aurum ætti svo að vera „kominn upp í þetta verðmæti“ þegar Aurum yrði selt til Dubai, en fjárfestar þaðan voru í viðræðum um að kaupa félagið. Þá leiði 6 milljarða lánið til þess að loka tryggingarholum Pálma og Fons við Glitni og 2,2 milljarðar fari til að greiða peninga til Pálma, þar af einn milljarður til Jóns Ásgeirs. „Með þessu er búið að leysa öll þess mál og bankinn mun ekki tapa á þessari eign,“ segir að lokum í póstinum.
Í framhaldi af þessu spurði saksóknari hvað Jón Ásgeir ætti þarna við og hvort að það hafi ekki verið tap vegna Stím-málsins sem lánið í Aurum-málinu átti að greiða upp. Jón Ásgeir sagðist aftur á móti ekki þekkja það.
Saksóknari spurði Jón Ásgeir næst um póst frá Pálma Haraldssyni í Fons þar sem Pálmi sagðist þykja ósanngjarnt að taka á sig „FS38 ævintýrið.“ Jón Ásgeir sagði saksóknara verða að spyrja Pálma að þessu. Ítrekaði hann að hann „vissi ekkert um stöðu FS38.“
Þá sýndi saksóknari póst frá starfsmanni Samherja til Jóns Ásgeirs þar sem listaðar eru ástæður þess að Samherji vildi ekki taka þátt í Stím-viðskiptunum. „Varstu í samskiptum við Pálma vegna Stím,“ spurði saksóknari. „Nei það held ég ekki, nei bara alls ekki,“ svaraði Jón Ásgeir.