Hafa selt „miklu dýrari myndir“

Listaverk eftir Louisu Matthíasdóttur.
Listaverk eftir Louisu Matthíasdóttur. mbl.is/Golli

„Þetta er óvenjulega hátt vegna þess að þetta er óvenjulega stór og mikil mynd. Miðað við aðrar sem við höfum selt þá er þetta ekkert of hátt verðmat,“ segir Tryggvi Páll Tryggvason, listmunasali í Gallerí Fold, í samtali við mbl.is.

Verkið „Brúnn hestur“ eftir Louisu Matthíasdóttur verður boðið upp á uppboði Foldar á þriðjudaginn. Verkið er 137x152 cm og er það metið á 7 - 9 milljónir íslenskra króna.

Þrátt fyrir hið háa uppsetta verð er þetta ekki hæsta verð sem sett hefur verið á verk í Gallerí Fold. „Nei, nei. Við höfum verið með miklu dýrari myndir.“

Tryggvi bendir á að hestamyndir og náttúrulífsmyndir fari yfirleitt á mjög háu verði. Verk eftir Louisu séu eftirsótt og hennar hesta- og náttúrulífsmyndir hafi alltaf verið mjög dýrar.

Aðspurður hvort Galleríið búist við því að fá uppsett verð segir Tryggvi að auðvitað voni menn það. „Við vonumst til þess, getum við sagt. Ég veit ekki hvort við getum búist við því en maður veit aldrei hvað gerist á þessum uppboðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert