Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa eftir að fegurðardrottningin Arna Ýr Jónsdóttir tilkynnti á Facebook-síðu sinni í morgun að hún væri hætt við að taka þátt í Miss Grand International í Las Vegas sem fram fer annað kvöld.
Frétt mbl.is: Arna Ýr: Ég er hætt
Rúmlega 13 þúsund manns hafa sýnt Örnu stuðning með því að líka við færslu hennar. Eins og áður kom fram er Arna hætt keppni eftir að eigandi keppninnar sagði henni að hún yrði að grennast fyrir úrslitakvöldið.
Frétt mbl.is: Segir Ungfrú Ísland of feita
Í gær sagði hún að þau skilaboð eigandans hefðu verið byggð á misskilningi en dró það til baka í morgun. Ekki var um misskilning að ræða heldur var Örnu fyrirskipað að segja málið hafa verið byggt á misskilningi. „Ég ætla að standa uppi fyrir sjálfri mér, öllum konum og íslensku þjóðinni,“ skrifaði Arna meðal annars í morgun.
Frétt mbl.is: Fituummælin byggð á misskilningi
Auk þeirra rúmlega 13 þúsund sem líkar við færslu hennar hafa fleiri en 600 skrifað athugasemdir þar sem Örnu er hrósað fyrir ákvörðun sína og hún hvött áfram.
„Þú ert frábær fyrirmynd. Það eru allir stoltir af þér! Þvílíkur karakter sem þú sýnir. Sem starfsmaður í átröskunarteymi LSH þá dáist ég að hugrekki þínu. Takk fyrir að sýna öllum konum að það á enginn að segja manni hvernig maður á að vera. Við eigum ekki að vera öll steypt í sama mót, fegurðin er í fjölbreytileikanum og að vera sáttur í eigin skinni og ekki að láta neinn segja sér eitthvað annað,“ skrifar ein í athugasemd við færslu Örnu.
„Fyrirgefðu en hvernig í ósköpunum getur þessum manni fundist þú vera of feit!? Þetta verður ekki til að laga orðspor þessara fegurðasamkeppna eins og lagt var upp með þessari keppni eigandinn drap þetta sjálfur. Annars vel gert hjá þér,“ var sagt í annarri athugasemd.
„Hafi eigandinn viljað grenna af þér bæði brjóst og lær, kynni skýringin að felast í því að hann sé hreinlega hrifnari af sköpulagi pilta en stúlkna,“ skrifaði tónlistarmaðurinn Jakob Frímann Magnússon.
Færslu Örnu frá því í morgun má sjá hér að neðan: