Fjöldi fólks kom saman á Austurvelli í dag á samstöðufundi í tilefni af kvennafrídeginum. Dagurinn var upphaflega haldinn 24. október árið 1975. mbl.is var á svæðinu og tók púlsinn á fólki. Mikill samhugur einkenndi samkomuna á þessum blíðskapardegi en þangað var mætt fólk á öllum aldri.
Bein útsending mbl.is frá deginum.
Gísli Hrafn Halldórsson og Sigrún Ýr Halldórsdóttir
Systkinin Gísli Hrafn og Sigrún Ýr vöktu athygli blaðamanns fyrir skiltin sem þau báru á samstöðufundinum í dag, en á skilti Gísla Hrafns stóð: „Á systir mín að fá minni vasapening?“ og á skilti Sigrúnar Ýrar sagði: „NeiNei!“
„Við erum hér til að mótmæla launamismun kynjanna, þetta er bara asnalegt eins og þetta er,“ sagði Gísli Hrafn.
Þá bætti Sigrún Ýr, systir hans, við: „Við viljum að konur fái rétt laun, þau sömu og karlmenn fá. Þetta er mjög ósanngjarnt eins og það er í dag.“
Stefán Gunnar Sigurðsson
„Ég er hér í dag til þess að mótmæla kerfisbundnu ofbeldi og til þess að styðja við kvenfólk á vinnumarkaðinum. Mér finnst rosalega ljótt að sjá það óréttlæti sem á sér stað í samfélaginu og það árið 2016,“ segir Stefán Gunnar Sigurðsson.
Spurður hvort hann hafi hugmyndir um hvernig hægt væri að knýja fram breytingar segir Stefán: „Mér finnst einfaldlega að launin ættu að vera jöfn, ég hef kannski ekki alveg úthugsað hvernig, en jöfn ættu þau að vera. Það væri til dæmis hægt með því að aflétta launaleynd og með því að taka ákvarðanir innan stjórna fyrirtækja sem gera það að verkum að launin verði jöfn.“
Sjálfur starfar Stefán Gunnar í félagsmiðstöðinni Frosti í Vesturbænum, en hann segir allar konur á vinnustaðnum hafa lagt niður störf klukkan 14.38 í dag. Þá var öllum krökkunum boðið að fara með starfsfólki Frostaskjóls á samstöðufundinn á Austurvelli.
Spurður út í þær breytingar sem hafa orðið á síðustu árum segir Stefán Gunnar umræðuna í samfélaginu hafa breyst gríðarlega. „Ég er rosalega bjartsýnn og jákvæður á framtíðina. Maður finnur fyrir miklum meðbyr í samfélaginu með þessum málum núna og ég trúi því að 2016 verði ár breytinga.“
Hefur þú orðið var við gamaldags hugsunarhátt innan þíns strákavinahóps varðandi launamun kynjanna?
„Nei, ég get nú ekki sagt það. En ef maður verður hins vegar var við það er það hlutverk okkar stráka að uppræta slíkan hugsunarhátt. Þetta getur ekki verið einhliða barátta. Við verðum öll að taka höndum saman.“
Ingibjörg Jónsdóttir og Marta María Árnadóttir
Mæðgurnar Ingibjörg Jónsdóttir og Marta María Árnadóttir voru mættar á Austurvöll í dag til þess berjast fyrir launajafnrétti kynjanna og sýna stuðning.
Ingibjörg starfar á leikskóla og Marta María á ferðaskrifstofu, en á báðum vinnustöðunum lögðu konur niður störf klukkan 14.38.
„Við þurfum að bíða eftir því að börnin verði sótt en flestir foreldrar komu að sækja fyrir 14.28,“ segir Ingibjörg.
Spurð út í þær breytingar sem hafa orðið í gegnum tíðina segir Ingibjörg: „Það hefur heilmikið breyst í gegnum árin en samt ekki nóg. Við þurfum miklu meira og það er í rauninni rosalega lítið sem hefur gerst frá fyrsta kvennafrídeginum árið 1975.“
„Það er enn 10% launamunur og við erum búnar að vera að berjast í um hálfa höld, það er ekki nógu gott. Nú er kominn tími á breytingar,“ bætir Marta María við.
Ása Katrín Pétursdóttir
Ása Katrín Pétursdóttir er átta ára gömul og var mætt á Austurvöll í dag ásamt móður sinni til þess að mótmæla launamisrétti kynjanna.
Þegar blaðamaður mbl.is spurði hana hverju hún væri að berjast fyrir í dag var svar Ásu Katrínar einfalt: „Ég vil að stelpur fái jafn mikil laun og strákar.“
Sveinn Magnússon
Sveinn Magnússon var mættur á Austurvöll í dag til þess að styðja jafnrétti í launum. „Ég á tvær dætur og vil að þær fái jöfn laun á við bræður sína. Ég hef enga ástæðu til þess að gera upp á milli barnanna minna frekar en annarra,“ segir Sveinn.
Sveinn starfar í velferðarráðuneytinu, en þar lögðu allar konur niður störf klukkan 14.38 í dag. Hann segir að breyta þurfi því viðhorfi sem hafi verið uppi í samfélaginu. „Ég hef sem betur fer ekki upplifað að starfa í slíku umhverfi en það er greinilega til og við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að breyta því.“
Kristín Indriðadóttir
„Ég er hér til þess að styðja málstaðinn. Launamunur kynjanna er algjörlega óþolandi,“ segir Kristín Indriðadóttir. Hún segist hafa séð ýmsar breytingar í gegnum tíðina en enn sé launamunur kynjanna algjörlega ólíðandi.
Spurð út í aðgerðir sem hægt væri að fara út í til þess að útrýma launamun kynjanna segir Kristín: „Ég bind vonir við þennan launastaðal sem maður hefur heyrt um núna og vona að hann muni hafa einhver áhrif.“
Iðunn Garðarsdóttir
„Ég er hér í dag af því að launamunur kynjanna er enn staðreynd og því þarf að breyta,“ segir Iðunn Garðarsdóttir.
Spurð út í hvað hún telji hægt að gera til að afnema launamun segir Iðunn: „Kannski væri hægt að taka á þessu með því að afnema launaleynd og tryggja gegnsæja ákvörðunartöku í launamálum almennt,“ segir Iðunn, sem telur að ekki hafi orðið nægilegar breytingar á síðustu árum. „Við erum á réttri leið en ekki komin nægilega langt.“