„Enn tilefni til að bæta stöðu kvenna“

Kvennafrídagurinn 2010
Kvennafrídagurinn 2010 mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Opnað var fyrir vefsíðu um jafnlaunastaðalinn á morgunverðarfundi um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum sem fram fór á Reykjavík Hilton Nordica í morgun. Eygló Harðadóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, ávarpaði fundinn og talaði hún meðal annars um áhrif jafnlaunastaðalsins og stöðu jafnréttismála á Íslandi.

Frétt mbl.is: Jafnlaunastaðall kynntur til sögunnar

„Staðallinn tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja hvers konar mismunun og hann nýtist atvinnurekendum til að bjóða starfsfólki réttláta og gagnsækja launastefnu,“ sagði Eygló í ávarpinu. Hún sagði jafnlaunastaðalinn jafnframt vera stjórntæki sem væri einstakt á heimsvísu.

Þá talaði Eygló um nýtt verkefni HeForShe sem ber nafnið IMPACT 10x10x10. Verkefnið var fyrst kynnt í janúar 2010 og leiðir það saman leiðtoga tíu þjóða, tíu fyrirtækja og tíu menntastofnana um allan heim. Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra er einn tíu þjóðarleiðtoga, en skuldbindingar Íslands snúa m.a. að því að útrýma launamun á Íslandi fyrir árið 2022, að jafna hlut kynjanna í fjölmiðlum fyrir 2020 og að fá fleiri karlmenn til liðs við jafnréttisbaráttuna. Allir leiðtogar skuldbinda sig til að takast á við kynjamisrétti og mun hópurinn vinna saman til að nýta reynslu af framkvæmd verkefna til að hvetja aðra leiðtoga til að taka upp sömu málefni.

Frétt mbl.is: Íslendingar í stóru hlutverki í HeForShe

Emma Watson er andlit átaksins HeForShe
Emma Watson er andlit átaksins HeForShe Mynd/AFP

Í ávarpi Eyglóar kom fram að verkefnið um jafnlaunastaðalinn hefði verið kynnt framkvæmdastjórn UN Women og hefur Emma Watson, leikkona og góðgerðarsendiherra UN Women, fallist á að koma hingað til lands og afhenda jafnlaunamerkið til fyrstu fyrirtækja og stofnana sem hljóta faggilta vottun á jafnlaunakerfum sínum.

Eygló lauk ávarpi sínu á því að minna á jafnréttisbaráttu kvenna og það sem hún hefði skilað. Hún sagði margt hafa breyst en enn mæti gera betur. „Þótt margt hafi áunnist er enn tilefni til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, vinna að launajafnrétti og auknu aðgengi kvenna að efnahagslegum og samfélagslegum valda- og áhrifastöðum. Sú stund að við getum staðið upp frá góðu verki er svo sannarlega ekki runnin upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert