„Ég vona bara að við séum allar að fara að mæta,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, þegar blaðamaður spyr hana hvort að hún ætli að mæta á Austurvöll í dag. „Já, auðvitað ætla ég að mæta,“ bætir hún við.
Eygló segist vona að kvennafríið hafi áhrif á starfið í ráðuneytinu. „Ég vona sannarlega að við bara mætum öll.“ Eygló segir að þó að dagurinn snúist um að konur leggi áherslu á að mótmæla kynbundum launamuni skipti það öllu máli að samfélagið í heild sé meðvitað og sýni samstöðu.
Eygló segir að launamunurinn mælist nú um 7,6% og að það liggi fyrir áætlun um hvernig megi breyta þessu. „Nú bara höldum við áfram. Við höfum verið að gera góða hluti en lokahnykkurinn er fram undan.“