Fleiri karlmenn á vakt

Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óvenjumargir karlkyns þjónustufulltrúar eru á vakt hjá 1818 í dag. Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, segist ekki búast við því að truflun verði á starfsemi fyrirtækisins vegna kvennafrídagsins.

 „Dagurinn er skipulagður þannig að það eru óvenjumargir karlkyns þjónustufulltrúar á vakt. Þjónustustjórinn er samt ekki mætt á staðinn svo að ég veit svo sem ekki hvort það er tilviljun eða hvort það er skipulagt,“ segir Sigríður Margrét í samtali við mbl.is. Hún segir stefnu fyrirtækisins vera að styðja við þær konur sem að vilja fara en að það sé „upp og ofan hvernig stemningin er“.

Sjálf ætlar Sigríður Margrét ekki að mæta á Austurvöll í dag. „Ég ætla að vera hér og standa vaktina. Ég gerði það líka síðast.“ Sigríður Margrét segir þó að jafnréttisbaráttan skipti hana auðvitað miklu máli: „Það er algjörlega ótækt að það sé óútskýrður munur á launum kynjanna árið 2016. Í mínum huga er það stjórnenda að tryggja að svo verði ekki áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert