Ekki hefur enn tekist að uppræta kerfisbundna mismunun kynjanna á íslenskum vinnumarkaði þrátt fyrir hálfrar aldar baráttu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forystu verkalýðshreyfingarinnar, sem hvetur konur um allt land til að sýna hver annarri samstöðu klukkan 14.38.
„Niðurstöður nýrra kjararannsókna verkalýðshreyfingarinnar vitna um stöðu sem er óviðunandi. Enn mælist óútskýrður munur á launum karla og kvenna. Það þýðir að konur fá lægri laun fyrir sömu störf og karlar gegna vegna þess að þær eru konur. Munur á heildartekjum karla og kvenna hérlendis er enn meiri, eða tæplega 30%. Sá munur skýrist meðal annars af því að þau störf sem konur gegna að miklum meirihluta eru minna metin en starfsgreinar þar sem karlar eru í meirihluta. Þá gegna konur hlutastörfum í meiri mæli en karlar,“ segir í tilkynningunni.
Í þessu sambandi sé mikilvægt að hafa í huga að í kjarasamningum sé samið um sömu laun fyrir konur og karla. Ákvörðunin um að greiða konum lægri laun en körlum fyrir sambærileg störf sé hins vegar tekin í hverri viku á vinnustöðum um allt land og við það verði ekki unað.
„Í dag, 41 ári eftir að íslenskar konur vöktu heimsathygli með því að leggja niður störf og vekja rækilega athygli á vinnuframlagi kvenna, þarf enn að grípa til aðgerða og krefjast raunverulegra úrbóta á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Þess vegna munu konur leggja niður störf í dag, mánudaginn 24. október kl. 14:38 og safnast saman á Austurvelli og víða um land. Aðgerðin eru skipulögð af samtökum kvenna og verkalýðshreyfingunni allri. Við hvetjum konur um allt land til að sýna samstöðu með hver annarri í dag kl. 14:38 og kröfunni um kjarajafnrétti STRAX!“