Jafnlaunastaðall kynntur til sögunnar

Þörf er á að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali, …
Þörf er á að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali, segir í tillögum hópsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur opnað vefsíðu fyrir svokallaðan jafnlaunastaðal, en markmið hans er að fyrirtæki og stofnanir geti komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggi að málsmeðferð og ákvörðunartaka í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Þetta gerði hún á fundi um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum sem haldinn var í morgun á Reykjavík Hilton Nordica, en þar voru einnig kynntar tillögur sérstaks aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, um framtíðarstefnu stjórnvalda í þessum efnum.

Vilja fjölga körlum í kennslustörfum

Í tillögum aðgerðahópsins er lögð áhersla á að fyrirtæki og stofnanir reki virka fjölskyldustefnu, að unnið verði að því að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskólavistar barna, auk áherslu á reglubundnar rannsóknir á launamun karla og kvenna sem nái til vinnumarkaðarins í heild.

Þörf sé á samstilltum aðgerðum stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins til að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali, auk þess sem komið verði á samstarfi stjórnvalda, samtaka aðila vinnumarkaðarins og fagfélaga um fjölgun karla í kennslu-, umönnunar- og hjúkrunarstörfum, og fjölgun kvenna í tæknifögum og verk- og raunvísindagreinum. 

Jafnlaunamerkið, hannað af Sæþóri Erni Ásmundssyni.
Jafnlaunamerkið, hannað af Sæþóri Erni Ásmundssyni.

Geta leitað eftir vottun

Í tillögum hópsins er jafnlaunastaðallinn sagður svokallaður kröfustaðall. Valfrjálst sé fyrir fyrirtæki og stofnanir að innleiða hann, en til að hljóta vottun samkvæmt honum er gert ráð fyrir að fylgt sé ákveðnu formlegu ferli.

Þannig geti fyrirtæki og stofnanir, sem telja sig hafa innleitt staðalinn með fullnægjandi hætti, leitað til vottunarstofu til að fá staðfestingu á því með formlegum hætti að unnið sé eftir þeim kröfum sem staðallinn setur.

Frétt mbl.is: Tæki til að minnka launamun

„Við uppbyggingu staðalsins er stuðst við svipað form og notað er í viðurkenndum stjórnunarstöðlum, til dæmis gæðastjórnunarstaðlinum ISO 9000 og umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO 14000.

Megineinkenni þeirra er að fyrirtæki sem vilja innleiða staðalinn skulu setja sér stefnu og síðan skjalfestar verklagsreglur til að framfylgja stefnunni,“ segir meðal annars í tillögunum.

Dragi úr sveigjanleika markaðarins

Fram kemur að kynjaskiptur vinnumarkaður hindri valmöguleika ungs fólks og hafi þannig áhrif á sjálfsmynd einstaklinga.

„Kynjaskipting á vinnumarkaði hefur áhrif á lífeyrisréttindi en konur eru mun líklegri en karlar til að njóta eingöngu grunnlífeyris og búa frekar við fátækt á efri árum. Hátt hlutfall þeirra kvenna sem starfa í hlutastörfum er viðvarandi og hefur áhrif á launa- og starfsþróun þeirra.“

Kynjaskipting starfa dragi þá úr úr sveigjanleika vinnumarkaðarins.

„Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 var til að mynda erfitt að manna störf þar sem kynjaskipting er mikil, til dæmis í heilbrigðis- og umönnunargreinum og tækni- og byggingargreinum.“

Erlendir aðilar sýnt áhuga

Hópurinn gerir einnig ljóst að fjölmargir erlendir aðilar hafi sýnt staðlinum áhuga. Áætlað sé þá að ensk þýðing á honum komi út í lok árs 2016, samhliða verklokum tilraunaverkefnisins, enda hafi hann verið byggður upp á sama hátt og alþjóðlegir gæðastaðlar með það að markmiði að hægt væri að nýta hann á alþjóðlegum vettvangi.

Sjá tillögur aðgerðahópsins á vef ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert