Konur streyma á Austurvöll

Kvennafrídagurinn 2016. Konur fjölmenna á samstöðufund á Austurvelli í Reykjavík
Kvennafrídagurinn 2016. Konur fjölmenna á samstöðufund á Austurvelli í Reykjavík mbl.is/Árni Sæberg

Konur hafa streymt niður á Austurvöll í Reykjavík í tilefni af kvennafrídeginum 2016. Samstöðufundur fer nú þar fram eins og víða um landið.

Dagurinn var upphaflega haldinn 24. október árið 1975 þegar konur um allt land lögðu niður vinnu til þess að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið og vakti hann mikla athygli víða um heim.

Haldið var upp á kvennafrídaginn í annað sinn árið 1985 þegar 25 þúsund konur lögðu niður vinnu. Tveimur áratugum síðar var komið að þriðja skiptinu, en þá gengu konur út tugþúsundum saman. Síðast var kvennafrídeginum fagnað árið 2010.

Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Katrín Halldóra Sigurðardóttir stýra samstöðufundinum á Austurvelli. Ræður flytja Guðrún Ágústsdóttir, einn af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, Una Torfadóttir, ungur femínisti og Justyna Grosel blaðamaður.

Fram koma hljómsveitin Eva, Brynhildur Björnsdóttir söngkona og Aðalheiður Þorsteinsdóttir, og Ellen Kristjánsdóttir og dætur. Lóa Bergsveinsdóttir stýrir takti.

Samstöðufundir fara einnig fram á Akureyri, Bolungarvík, Egilsstöðum, Grundarfirði, Hellu, Höfn í Hornafirði, Ísafirði, Neskaupstað, Patreksfirði, Sauðárkróki og Þorlákshöfn.

Frá samstöðufundi á Akureyri í dag.
Frá samstöðufundi á Akureyri í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert