Öllum afgreiðslum og þjónustuveri Póstsins verður lokað klukkan 14.00 vegna kvennafrídagsins. Þá má einnig búast við röskunum á annarri starfsemi Póstsins í dag, að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Verkalýðshreyfingin hefur hvatt konur til að leggja niður störf kl. 14.38 í dag til að krefjast þess að launamunur kynjanna verði upprættur. Í tilkynningu segist Pósturinn styðja þær konur sem ætli að sýna samstöðu og leggja niður störf á kvennafrídeginum og vekja þannig athygli á kynbundnum launamun.
„Pósturinn leggur mikla áherslu á jöfn laun og kjör kynjanna og hefur fyrirtækið hlotið Gullmerki í jafnlaunaúttekt PwC,“ segir í tilkynningunni.