„Það hefur ekki verið gefið út af yfirráðamönnum bæjarins að það verði lokað. Það verður að skoða hvernig aðstaðan er á hverjum stað fyrir sig,“ segir Hrafnhildur Sigurðardóttir, leikskólafulltrúi Akureyrarbæjar, spurð hvort leikskólum á Akureyri verði lokað vegna kvennafrídags í dag.
Hún segir að það verði að skoða á hverjum leikskóla fyrir sig hversu mörg börn mæti og þá hvort einhverjir starfsmenn geti farið. Hrafnhildur bendir á að stjórnendur leikskóla hafi ekki heimild til að loka skólunum heldur sé það hlutverk Akureyrarbæjar. Núna sé verið að vinna að því að fara yfir stöðuna á hverjum leikskóla fyrir sig.
Þegar haft var samband við leikskólann Kiðagil á Akureyri og spurt hvort konur ætluðu að leggja niður störf kl. 14.38 var vísað beint til Akureyrarbæjar.