Samstaðan skipti máli þá og nú

Fjölmennt er á samstöðufundinum á Austurvelli.
Fjölmennt er á samstöðufundinum á Austurvelli. mbl.is/Golli

Fæðingarorlof og bylting í stjórnmálaþátttöku kvenna er á meðal þess sem samstaða kvenna hefur áorkað. Guðrún Ágústsdóttir, einn stofnenda Rauðsokkahreyfingarinnar, sagði samstöðuna skipta máli nú eins og hún gerði þegar kvennafrídagurinn var fyrst haldinn árið 1975.

Guðrún sagði að þegar fyrsti kvennafrídagurinn var haldinn hafi verið litið niður á störf kvenna. Þrátt fyrir lög um sömu laun fyrir sömu vinnu hafi störf verið niðurnjörvuð í karla- og kvennastörf þar sem konur hlutu lægri laun.

Samstaðan hafi skipt máli þá og hún skipti máli núna. Hún hafi skilað rétti til fæðingarorlofs, fóstureyðinga, byltingu í stjórnmálaþátttöku kvenna og því að Vigdís Finnbogadóttir hafi verið kjörin forseti aðeins fimm árum eftir kvennafrídaginn.

Þó að allir þessir áfangar hafi verið mikilvægir sagði Guðrún að illa hefði gengið að ráða við markaðskerfið og enn eimdi eftir af því viðhorfi að karlar væru fyrirvinnur og störf þeirra væru mikilvægari en kvenna. Vinnumarkaðurinn væri enn kynskiptur.

Hvatti hún konur til að nota samtakamátt sinn til að láta lögbinda jafnlaunastaðal þó að hann leysti ekki einn og sér allan vanda. Konur ættu að halda áfram að finna nýjar og ögrandi leiðir í baráttu sinni sem lyki aldrei.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert