Skert þjónusta í Íslandsbanka

Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka.
Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka. Ljósmynd/Ari Magg

Íslandsbanki hefur auglýst í útibúum sínum að þjónusta geti skerst seinni part dagsins. Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka, segir mikla samstöðu vera í bankanum um kvennafríið. „Við búumst við því að flestar konur gangi út.“

Edda segir margar þeirra áhugasamar um að hafa kost á því að fara á Austurvöll og að Íslandsbanki hafi verið viðbúinn því að loka í einhverjum útibúum ef þess þyrfti. „En mér sýnist að við séum bara að horfa á skerta þjónustu.“

Sjálf ætlar Edda að mæta á Austurvöll og hún telur líklegt að aðrir stjórnendur og millistjórnendur bankans geri slíkt hið sama. „Það skiptir máli í svona að stjórnendur fari fyrir hópnum. Stjórnendur vísa svolítið veginn í þessu.“

Í tilkynningu á heimasíðu bankans stendur: „Íslandsbanki hvetur konur til að taka þátt í samstöðufundum í dag til að mótmæla launamun kynjanna. Eftir klukkan 14:38 getur því verið skerðing á þjónustu í útibúum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert