Þakkar íslenskum konum hugrekkið

Frá svörtum mótmælum á fóstureyðingalöggjöf í Póllandi á Austurvelli.
Frá svörtum mótmælum á fóstureyðingalöggjöf í Póllandi á Austurvelli. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég ætla að þakka íslenskum konum fyrir hugrekkið sem þær hafa sýnt pólskum konum. Kvennafrídagurinn á sjöunda áratugnum var okkur mikill innblástur í baráttu okkar gegn fóstureyðingalöggjöfinni í Póllandi,“ segir Justyna Grosel blaðamaður, sem er ein af þeim konum sem flytja munu ræður á Austurvelli í Reykjavík í dag í tilefni af kvennafrídeginum.

Samstaða íslenskra kvenna var fyrirmynd pólskra kvenna að mótmælum þeirra í Póllandi gegn löggjöf um fóstureyðingu þar í landi sem hófust í upphafi októbermánaðar og standa enn yfir. Í Póllandi gilda ein ströngustu lög í heimi um fóstureyðingar. 

Frétt mbl.is: Áfram mót­mælt í Póllandi

Grosel segir frumvarpið sem er unnið að nú í Póllandi lýsa hugsunarhætti og viðhorfi til kvenna sem líkist helst því sem tíðkaðist á miðöldum þegar konur höfðu ekki vald yfir eigin líkama. Hún segir að enn sé langt í land og því verði að berjast gegn þessu ríkjandi viðhorfi sem viðgangist í pólsku samfélagi.

Hún segir þetta snúast um kvenréttindi í heild sinni. Þau varði allar konur, hvar sem þær séu í heiminum. 

„Það verður gaman að vera með íslenskum konum í dag,“ segir hin pólskættaða Marta Niebieszczanska. Hún tekur í sama streng og Grosel og segir réttindi kvenna á Íslandi vera nokkuð góð. Hins vegar þurfi að halda áfram að styðja konur í Póllandi fyrir baráttunni um rétt yfir eigin líkama og að hafa val. 

Í byrjun mánaðarins voru mótmæli á Austurvelli gegn frumvarpi um fóstureyðingar í Póllandi. 

Frétt mbl.is: „Þetta skipt­ir okk­ur miklu máli“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert