„Við ætlum allar að ganga út,“ segir Friðbjörg Eyrún Sigvaldadóttir, leikskólastjóri í Hálsaskógi spurð hvort starfsfólkið ætli að leggja niður störf kl. 14.38 á Kvennafrídaginn. Í leikskólanum eru 35 starfsmenn, allt konur.
Hún reiknar ekki með öðru en það muni ganga upp eins og í fyrra. Það sama var uppi á teningnum í fyrra þegar starfsfólkið í leikskólanum lagði niður störf á kvennafrídaginn. Á föstudagin síðasta fengu foreldrar boð um að starfsfólk myndi leggja niður störf kl. 14.38 í dag.
Starfsfólk í öllum leikskólum í Breiðholti mun leggja niður störf í dag og mikil samstaða er innan stéttarinnar, að sögn Friðbjargar.
„Það skiptir mjög miklu máli. En ég verð líka síðust út og tek ábyrgðina ef ekki verður sótt,“ segir Friðbjörg spurð hvort það skipti máli að stjórnendur sýni sjálfir fordæmi og taki þátt í aðgerðunum.
Reykjavíkurborg sendi frá sér tilkynningu á föstudaginn þar sem foreldrar eru hvattir til að ná í börnin sín fyrr í leikskólann. Þetta mun líklega hafa einnig áhrif á frístundastarf en ekki starf grunnskólanna því í dag er haustfrí í öllum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. „Búast má við að konur skundi á Austurvöll á mánudag á samstöðufund um launajafnrétti. Foreldrar eru því beðnir um að sækja leikskólabörn fyrir kl. 14.30 eftir því sem kostur er.“ Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar.