Ferðamennirnir í áfalli

Lögreglu- og slökkviliðsmenn aðstoða slasaða á vettvangi rútuslyssins á Þingvallavegi.
Lögreglu- og slökkviliðsmenn aðstoða slasaða á vettvangi rútuslyssins á Þingvallavegi. mbl.is/Júlíus

Þeir ferðamenn sem fluttir voru á fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ eftir rútuslysið á Þingvallavegi voru margir hverjir í áfalli. Einhverjir þeirra fengu þar hlúð að minniháttar meiðslum sínum auk þess sem allir fengu áfallahjálp, eða svokallaðan samfélagslegan stuðning.

27 manns, að fararstjóranum meðtöldum, voru fluttir á fjöldahjálparstöðina sem opnuð var í Mosfellsbæ í kjölfar þess að rúta þeirra valt út af Þingvallavegi. Að minnsta kosti fjórtán sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa komið að aðgerðum í dag.

„Þau hafa reynt að tjá sig eins og þau geta en þau eru mestmegnis aðeins mælandi á mandarín og það hafa verið einhverjir örðugleikar á samskiptum,“ segir Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, í samtali við mbl.is.

Einhverjir skjólstæðinganna hafi þó getað þýtt frá ensku yfir á mandarín.

Fluttir aftur á hótelið

„Hérna fengu þau húsaskjól og heitan mat, en einnig aðstoð þriggja lækna sem fóru yfir ástand þeirra, auk tveggja sálfræðinga,“ segir Björn. „Maður hefur fundið fyrir miklu þakklæti.“

Hópurinn verður nú fluttur á hótelið sitt í Reykjavík, að sögn Björns.

„Tveir sjálfboðaliðar Rauða krossins fylgja þeim, þurfi þau á frekari aðstoð að halda.“

Lögreglumenn aðstoða farþega sem var um borð í rútunni er …
Lögreglumenn aðstoða farþega sem var um borð í rútunni er hún valt. mbl.is/Júlíus

Tölurnar stemmdu ekki

Verið er að hífa rútuna upp á svokallaðan flatvagn, og á honum verður hún flutt á þann stað sem tryggingafélagið óskar eftir. Þetta segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

„Þetta eru stór handtök náttúrulega, en við erum að leggja lokahönd á þetta.“

Í kjölfar slyssins sendi lögreglan frá sér tilkynningu þar sem þeir, sem kynnu að hafa tekið upp farþega á svæðinu, voru beðnir um að láta tafarlaust vita af því.

Ásgeir segir að í upphafi hafi tölur lögreglunnar yfir farþega ekki komið heim og saman við tölur ferðaþjónustunnar.

„Hluti fólksins sem var óslasað var komið inn í bíla svona hingað og þangað. Tölurnar okkar stemmdu því ekki til að byrja með. En að lokum komu allir í leitirnar svo við gátum stemmt af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert