„Málefnið brennur á okkur“

Frá fjölmennum samstöðufundi akureyrskra menntaskólastúlkna á Akureyri í morgun.
Frá fjölmennum samstöðufundi akureyrskra menntaskólastúlkna á Akureyri í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Stúlkur í Menntaskólanum á Akureyri héldu sinn eigin samstöðufund í morgun. Vetrarfrí var í skólanum í gær, á kvennafrídaginn, en þær vildu líka geta staðið upp og sýnt hug sinn í verki. Stúlkurnar gengu því út úr kennslustund kl. 9.30 í morgun og héldu niður á Ráðhústorg, þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá. Fjöldi stúlkna úr Verkmenntaskólanum á Akureyri var einnig á fundinum.

„Hugmyndin kviknaði fyrir um það bil tveimur vikum í kynjafræðitíma, við höfum unnið að undirbúningi síðan og ég er mjög ánægð með hvernig þetta heppnaðist,“ segir Dagný Guðmundsdóttir, nemandi í 3. bekk MA, við mbl.is. Það voru nemendur í kynjafræði ásamt Femínistafélagi MA sem höfðu veg og vanda að samkomunni.

Fundargestir hlýddu með athygli á ávörp, ljóðalestur og söng.
Fundargestir hlýddu með athygli á ávörp, ljóðalestur og söng. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Dagný segir alla í MA hafa tekið hugmyndinni mjög vel, meðal þeirra Jón Már Héðinsson, skólameistari, sem gaf stúlkunum frí vegna fundarins. Enginn fær því skráða fjarvist. Nokkrir kennarar mættu einnig á fundinn í morgun. „Þeir settu strákunum fyrir verkefni og mættu svo á fundinn. Strákarnir áttu að vera áfram uppi í skóla að læra.“

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Mjög góð mæting var úr MA, segir Dagný, og einnig kom hópur úr Verkmenntskólanum. „Mætingin var eiginlega betri en ég átti von á,“ segir Dagný. „Ég er í hálfgerðu spennufalli núna. Undirbúningurinn hefur tekið mikinn tíma og ég þarf að fara að skoða hvað ég þarf að læra. Hef ekki haft mikinn tíma til þess undanfarið!“

Fundurinn var kraftmikill. Nokkur ávörp voru flutt, bæði af nemendum, einum kennara og konum utan skólans. Þá var boðið upp á ljóðalestur og söngatriði og félagar í Prima, dansfélagi skólans, sýndu listir sínar.

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Kynjafræði er valfag í MA en áhuginn var svo mikill í haust að ekki komust allir að sem vildu. „Aðsóknin var mikil, sem er gott, enda viljum við að kynjafræði verði skyldufag í menntaskólum. Þar er meðal annars fjallað um femínistabyltinguna í gegnum árin og ekki fjallað bara um konur, enda skiptir jafnrétti alla máli og mjög mikilvægt að tala um það. Og málefni dagsins, kynbundinn launamunur, brennur á okkur stelpunum; við erum auðvitað mjög harðar á því að honum verði að útrýma. Þess vegna vildum við halda okkar eigin fund til að geta staðið upp og sýnt hug okkar í verki,“ segir Dagný.

Samstöðufundur akureyrskra menntaskólastúlkna á Akureyri í morgun.
Samstöðufundur akureyrskra menntaskólastúlkna á Akureyri í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Samstöðufundur akureyrskra menntaskólastúlkna á Akureyri í morgun.
Samstöðufundur akureyrskra menntaskólastúlkna á Akureyri í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert