Neyðarástandi hefur nú verið aflétt á Landspítalanum samkvæmt upplýsingum mbl.is. Blóðbankinn hefur því ekki þurft að gefa frá sér frekara ákall um blóðgjafir í kjölfar rútuslyssins sem varð fyrr í dag.
42 voru um borð í rútunni sem valt út af Þingvallavegi upp úr klukkan tíu í morgun. Fimmtán voru fluttir á Landspítalann til aðhlynningar en 27 voru fluttir í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ.
Frétt mbl.is: Fimmtán fluttir á Landspítalann
Vigdís Jóhannsdóttir, forstöðumaður blóðsöfnunar hjá Blóðbankanum, segir í samtali við mbl.is að Blóðbankinn eigi að ráða við álagið sem þessu fylgir.
„Við önnum því sem þeir eru að biðja um. Við höfum verið að hringja í okkar reglulegu blóðgjafa og það verður bara venjuleg opnun hjá okkur í dag, eins og staðan er núna.“
Segir hún marga blóðgjafa hafa brugðist fljótt við símtali til sín, og einhverjir hafi jafnvel komið áður en hringt hafi verið í þá, en eftir að þeir fréttu af slysinu.
„Það reynist okkur best í þessum aðstæðum að hringja í þá sem eru vanir, þá vitum við að þeir eru nógu hraustir til að geta gefið,“ segir Vigdís. „Sem betur fer er staðan þannig að við önnum þessu vel.“