Fjórir fluttir á Landspítalann

Farþegi sem slasaðist er rútan valt fluttur á börum í …
Farþegi sem slasaðist er rútan valt fluttur á börum í átt að sjúkrabíl. mbl.is/Júlíus

Fjórir hið minnsta voru fluttir með sjúkrabílum á Landspítalann eftir að rúta valt á Þingvallavegi til móts við Skálafell fyrir hádegi í dag. Um borð voru um fjörutíu manns. Leiðsögumaður og ökumaður rútunnar eru íslenskir, en meirihluta farþeganna kínverskir. Leiðsögumaðurinn og bílstjórinn sluppu ómeiddir.

Frá upphafi var ljóst að slysið væri alvarlegt og var því fjölmennt lið björgunaraðila sent á staðinn.

Beita þurfti klippum til að losa farþega sem ekki tókst að komast út úr rútunni af sjálfsdáðum.  Landspítalinn hefur verið settur á gult viðbúnaðarstig vegna slyssins. Er fólk vinsamlegast beðið um að koma ekki á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi nema brýna nauðsyn beri til.

Farþegar í rútunni eru á leið til Reykjavíkur með annarri rútu og verður tækjabíll sendur á slysstað til þess að sækja rútuna. 

Fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ var virkjuð. Aðgerðir á vettvangi standa enn yfir og Þingvallavegur er áfram lokaður.

Lögreglan vill biðja alla þá sem tóku farþega upp í bíla sína eða slasaða á slysavettvangi að láta strax vita svo að hægt sé að tryggja að allir farþegar í rútunni séu fundnir. Hægt er að láta vita gegnum símanúmerið 112 eða tilkynna það til björgunaraðila á vettvangi.

Lögreglu- og slökkviliðsmenn aðstoða slasaða á vettvangi rútuslyssins á Þingvallavegi.
Lögreglu- og slökkviliðsmenn aðstoða slasaða á vettvangi rútuslyssins á Þingvallavegi. Mbl.is/Júlíus

Frétt mbl.is: Viðbúnaður vegna rútuslyss

Blaðamaður mbl.is var kominn á staðinn fljótlega eftir að slysið varð. Um kl. 11.33 var búið að flytja einn slasaðan af vettvangi með sjúkrabíl til Reykjavíkur og var þá verið að undirbúa flutning á öðrum manni. Þá var mikill fjöldi sjúkrabíla á vettvangi og tveir slökkviliðsbílar. Þyrlan hafði verið kölluð út en var ekki kominn á staðinn Aðstæður á svæðinu voru erfiðar, það var snjór á veginum og enn snjóaði. 

Rútan var á leið í átt að Þingvöllum er hún fór útaf veginum. 

Ferðamenn sem ekki slösuðust fengu skjól í rútum sem voru á sömu leið fljótlega eftir að slysið varð. Nokkru síðar kom stærri rúta á vettvang þangað sem ferðamennirnir voru fluttir. Enn var unnið að því að losa fólk úr rútunni.

Um fimmtán mínútum seinna eða kl. 11.44 hafði tekist að ná báðum þeim sem voru fastir inni í rútunni út. Þeir voru báðir aftast í rútunni er slysið varð. Þá var búið að flytja að minnsta kosti þrjá á Landspítalann með sjúkrabílum. 

Uppúr klukkan tólf var búið að flytja að minnsta kosti fjóra á sjúkrahús og var þá ekki vitað um alvarleika meiðslanna. 

Rútan valt út af Þingvallavegi.
Rútan valt út af Þingvallavegi. mbl.is/Júlíus

 Annað rútuóhapp varð í Hveradalsbrekkunni á Hellisheiði í morgun engin slys urðu á fólki, að sögn lögreglunnar á Selfossi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert