Einn farþegi rútunnar sem fór út af á Þingvallavegi í gær er enn á gjörgæsludeild Landspítalans, en hann er alvarlega slasaður. Ólíklegt er að hann verði útskrifaður þaðan á næstu dögum. Sex eru á almennum deildum spítalans.
Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Landspítalans, segir að annar af þeim tveimur farþegum sem voru lagðir inn á gjörgæsludeild eftir slysið í gær hafi verið fluttur á almenna deild í dag. Alls eru sex farþegar rútunnar á Landspítalanum en þar af eru sex á almennum deildum.
Tilkynning um slysið barst kl. 10.18 í gærmorgun og var þá allt tiltækt lið sent á vettvang. Þar var kalsaveður, slydda og aðstæður mjög erfiðar, segir Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn, sem stýrði aðgerðum. Allt gekk þó snurðulaust og segist Ásgeir sáttur við það hvernig hlutirnir gengu fyrir sig. Aðgerðir á vettvangi tóku hálfa þriðju klukkustund. Þingvallavegur var lokaður fram undir klukkan 15 í gær vegna slyssins, bæði vegna rannsóknar á slysstað og þess tíma sem tók að draga rútuna upp, en hún var flutt á stórum vagni til Reykjavíkur.
Alls fóru 17 manns úr rútunni með sjúkrabílum á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi. Viðbúnaðaráætlun spítalans var virkjuð vegna þessa og sérstaklega var litið til þess að nægar birgðir væru tiltækar í Blóðbankanum.
Þetta er eitt stærsta og alvarlegasta rútuslys sem orðið hefur hér á landi, að sögn Ágústs Mogensen hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Menn þar munu nú kanna tildrög slyssins og hvert ástand rútunnar var, en hún var ekki komin á negld dekk.
Farþegar rútunnar voru flestir Kínverjar. Þeir sem ekki fóru á sjúkrahús fengu aðhlynningu á hjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ, en margir voru í andlegu uppnámi eftir slysið eða með minniháttar meiðsl. Sjálfboðaliðar Rauða krossins voru fólkinu til halds og trausts og fylgdu því á hótel. Því býðst svo önnur aðstoð eftir atvikum og þörf hvers og eins.