Bættu í raun tryggingastöðu bankans

Óttar Pálsson (t.v.) sagði saksóknara gera tölvupósta tortryggilega án ástæðu.
Óttar Pálsson (t.v.) sagði saksóknara gera tölvupósta tortryggilega án ástæðu. Árni Sæberg

Ráðstöfun Glitnis á 6 milljörðum vegna viðskipta með bréf Aurum bætti í raun tryggingarstöðu bankans með því að fá betri veð fyrir háum ótryggðum útlánum sem tengdust félaginu Fons. Ekki er rétt hjá ákæruvaldinu að lánveitingin hafi aukið fjártjónshættu bankans. Þetta kom fram í málflutningi Óttars Pálssonar, verjanda Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, fyrir héraðsdómi í gær og í dag.

Ein og hálf vika í dómsal

Málið er umfangsmikið og hefur aðalmeðferð tekið um eina og hálfa viku, en þetta er í annað skiptið sem málið er rekið fyrir héraðsdómi. Málflutningur ákæruvalds hófst í gær og tók Óttar svo við. Var málflutningi hans skipt upp í tvo hluta svo hann hélt áfram á ný í dag.

Fór Óttar yfir hvernig málið væri uppbyggt. Að FS38 og Glitnir hafi gert samning um lán sem var meðal annars notað til að kaupa 25,7% hlut í Aurum og fóru 4 milljaðrar af þeirri upphæð í uppgjör skulda við Glitni. Um 2 milljarðar fóru á reikning Fons hjá bankanum og þar af 1 milljarður til Jóns Ásgeir Jóhannessonar og var 750 milljónir af því notað til að greiða upp yfirdráttarheimild hans. Sagði verjandinn því að hreint útflæði væri 1,3 milljarðar en ekki 2 milljarðar sem saksóknari hefði gefið í skyn, né 6 milljarðar sem hafi verið heildarupphæð lánsins.

Þá ítrekaði Óttar ítrekað að til trygginga fyrir þessu útláni hafi verið tekið veð í bréfum Aurum sem metin hafi verið á 4 milljarða og 1,75 milljarða sjálfskuldarábyrgð hjá Fons. Sagði Óttar að veðstaða bankans hafi með þessu batnað en ekki versnað.

4,7 milljarðar ótryggt eða 6 milljarðar með veði og ábyrgð

Vísaði hann til þess að fyrir lánveitinguna hafi Fons verið með 4,7 milljarða ótryggð útlán, en þau komu meðal annars vegna markaðsviðskipta félagsins hjá bankanum. Eftir viðskiptin hafi útlánin verið 6 milljarðar, en á bak við það hafi staðið veð og sjálfskuldarábyrgð.

„Gögn málsins bera þess skýr merki að menn voru að leita leiða til að tryggja stöðu bankans gegn vandamálum sem lágu fyrir,“ sagði Óttar og bætti við að vandamálið hafi verið erfið staða Fons. Gagnrýndi hann saksóknara fyrir að hafa í málflutningi sínum sagt að hugmyndir um lánið hafi hækkað úr 4 í 6 milljarða bara sí svona. Raunin hafi verið sú að með þessari hækkun hafi einnig komið sjálfskuldaábyrgð Fons upp á 1,75 milljarða.

Tölvupóstar gerðir tortryggilegir án ástæðu

Óttar gagnrýndi einnig framsetningu ákæruvaldsins í málinu og sagði að fjölmargir tölvupóstar hefðu verið gerðir tortryggilegir án þess að efnislegur grundvöllur væri fyrir því. Þá hefði saksóknari ekki lagt fram fjölda gagna sem væru grundvallaratriði í málinu. Sérstaklega væri um að ræða verðmöt sem hefðu verið gerð í kringum þann tíma sem lánið var veitt. „Hann velur og hafnar eins og honum sýnist og setur fram með það eitt að ná fram sakfellingu,“ sagði Óttar um saksóknara og bætti við að þrátt fyrir það hvíldi á saksóknara hlutlægnisskylda.

Ítrekaði Óttar að til þess að hægt væri að sakfella fyrir umboðssvik, eins og ákært er fyrir í málinu, þyrfti bæði að sýna fram á að Lárus hafi misnotað aðstöðu sína og farið út fyrir heimildir sínar. Auk þess þurfi að sanna að hann hafi skapað verulegt fjártjón eða fjártjónshættu fyrir Glitni. Óttar sagði hvorugt þessara atriða hafa verið uppfyllt af saksóknara og meðal annars séu menn sammála um að lánið hafi ekki farið yfir þau mörk sem áhættunefnd hafði til að samþykkja lánið á sínum tíma.

Tapáhætta úr 80% í 46%

Varðandi síðara atriðið sagði Óttar að þetta hefðu verið eðlileg viðskipti þar sem áhættu hafi verið hliðrað. Menn hafi sé að ótryggð staða Fons væri allt of há miðað við stöðu félagsins og því viljað fá frekari veð. Vísaði hann til þess að samkvæmt útreikningum dr. Hersis Sigurgeirssonar, sem lagðir voru fyrir dóminn, að líkur á tapi bankans vegna útlánanna hafi lækkað úr 80% niður í 46% með þessari ráðstöfun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka