Stofnun múslima á Íslandi hefur stefnt Menningarsetri múslima vegna ólögmætra leiguafnota af Ýmishúsinu í Skógarhlíð. Þetta staðfesti Gísli Björnsson, lögmaður Stofnunar múslima á Íslandi, í samtali við mbl.is.
Stefnan var þingfest 13. október en Menningarsetrinu er stefnt til greiðslu upp á tæpar 15 milljónir króna auk dráttavaxta. Svokallaður afnotasamningur milli félaganna rann úr gildi um áramótin 2014-15 og því eru hin ólögmætu leiguafnot frá þeim tíma og þar til Menningarsetrið var borið út úr Ýmishúsinu í júní í ár.
Málið á sér talsverða forsögu en fyrr í október var þingfest mál Menningarsetursins gegn Stofnun múslima. Þar er þess krafist að leiguréttur Menningarsetursins í Ýmishúsinu í Skógarhlíð verði staðfestur.
Stofnun múslima er eigandi hússins, en það var keypt árið 2010. Stofnunin sagði fyrr á þessu ári að það hafi gert afnotasamning við Menningarsetrið og að staðið hafi til að gerður yrði húsaleigusamningur. Drög að þeim samningi hafi verið gerð og dagsett 20. desember 2012 og átt að gilda til 31. desember 2023. Næsta dag hafi hins vegar verið ákveðið að breyta fyrirkomulaginu og gefa Menningarmiðstöðinni afnotarétt af hluta hússins án endurgjalds. Þetta hafi verið staðfest með samningi sem er dagsettur 21. desember 2012, en að fyrri samningurinn hafi með þessu verið feldur niður. Samkvæmt lögmanni Stofnunar múslima er það staðfest í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í útburðarmálinu.
Fyrri samningurinn var undirritaður og vottaður síðar, en sá síðari var undirritaður af einum manni fyrir hönd hvors aðila og heldur Menningarsetrið því fram að sá samningur hafi verið dagsettur aftur í tímann og að sá sem undirritar samninginn fyrir þeirra hönd hafi ekki gert það fyrr en eftir að hann tók að starfa með Stofnun múslima. Menningarsetrið afhenti fyrri samninginn til þinglýsingar 22. janúar 2015. Í úrskurðinum um útburð kom fram að seinni samningurinn hafi fellt fyrri samninginn úr gildi.
Auk þess er Stofnun múslima búin að stefna RÚV og 365 auk Salmanns Tamini fyrir meiðyrði. Í frétt RÚV frá því í byrjun júlíl var Stofnunin tengd við erlend hryðjuverkamann úr röðum ISIS. Á fréttavef Vísis var frétt um meinta tengingu við sama hryðjuverkamann, og viðtal við Salmann Tamimi um það.