Einn farþega rútunnar sem fór út af Þingvallavegi í fyrradag er enn á gjörgæsludeild. Þetta staðfestir Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Landspítalans. Ekki fengust upplýsingar um ástand annarra farþega, en fram kom í frétt mbl.is í gær að sex væru enn á almennum deildum.
Frétt mbl.is: Einn áfram á gjörgæslu
Landspítalinn lýsti yfir neyðarástandi á þriðjudag vegna rútuslyss á Þingvallavegi. Fjörutíu og tveir voru í rútunni, þar af voru sautján fluttir á bráðamóttöku en aðrir farþegar voru fluttir í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ.
Tildrög slyssins verða könnuð af rannsóknarnefnd samgönguslysa en fram hefur komið í fréttum að él hafi verið á veginum og rútan ekki á negldum dekkjum.