Landvernd er að bíða eftir gögnum frá Skútustaðahreppi vegna nýs framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu 4. Eftir að gögnin hafa verið skoðuð munu samtökin ákveða hvort kæra verður lögð fram í annað sinn vegna leyfisins.
Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.
Frétt mbl.is: Ný framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4
Landsnet sótti um framkvæmdaleyfi í mars sem Skútustaðahreppur veitti. Landvernd kærði þann úrskurð og í framhaldinu felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála leyfið úr gildi.
Landsnet sótti aftur um leyfið, sem hefur núna verið veitt. „Við höfum núna tækifæri til að láta reyna á þá ákvörðun öðru sinni ef við teljum það nauðsynlegt,“ segir Guðmundur Ingi.
Fresturinn sem samtökin hafa til þess er einn mánuður.