Stormviðvörun á kjördag

Veðurspáin fyrir kjördag hefur versnað og varar Veðurstofan við stormi á morgun. Það gengur í austan hvassviðri eða storm á morgun með snjókomu eða slyddu og síðar talsverðri rigningu, fyrst sunnantil og hlýnar í veðri.

Suðvestlæg átt á landinu í dag, 8-13 m/s og skúrir eða él, en hálfskýjað fyrir austan og þurrt. Lægir og léttir til í kvöld og kólnar og má víða búast við næturfrosti í nótt, einkum inn til landsins.

Gengur í austan hvassviðri eða storm á morgun með slyddu eða snjókomu, en síðar talsverðri rigningu, fyrst suðvestantil á landinu, en þurrt norðanlands fram yfir hádegi. Suðaustan hvassviðri annað kvöld og rigning um allt land. Hlýnar í veðri. Aftur suðvestan útsynningur á mánudag, segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næsta sólarhring:

Suðvestan- og vestanátt, víða 8-13 m/s og skúrir eða él, en skýjað með köflum austanlands. Hiti 0 til 7 stig yfir daginn, hlýjast austast. Lægir og léttir til með kvöldinu og kólnar. Vaxandi austanátt seint í nótt, 15-23 sunnan- og vestantil í fyrramálið og snjókoma eða slydda og síðar talsverð rigning rigning, en heldur hvassara allra syðst. Austan 13-20 norðantil upp úr hádegi og snjókoma eða slydda, en fer að draga úr vindi sunnantil. Suðaustan og austan 13-20 annað kvöld og rigning. Hlýnandi veður.

Á laugardag:
Gengur í austan og suðaustan 15-23 m/s sunnan- og vestanlands um morguninn með slyddu og síðar talsverðri rigningu. Austlæg átt 13-20 m/s norðanlands upp úr hádegi og slydda eða snjókoma, en fer að draga úr vindi fyrir sunnan. Hlýnandi veður og rigning um allt land um kvöldið.

Á sunnudag:
Sunnan- og suðvestanátt, 8-18 m/s og rigning eða skúrir, en léttir til um landið austanvert. Hvassast við suðurströndina. Hiti yfirleitt 3 til 8 stig.

Á mánudag:
Ákveðin norðvestanátt og snjókoma eða él fyrir norðan, annars úrkomulítið. Dregur úr vindi og léttir til S- og V-lands þegar líður á daginn. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst.

Á þriðjudag:
Minnkandi norðvestanátt og dálítil él A-lands, annars hægur vindur og bjart með köflum. Hiti kringum frostmark.

Á miðvikudag:
Heldur vaxandi sunnan átt og dálítil rigning vestantil um kvöldið, en annars þurrt og bjart að mestu. Hlýnar heldur í veðri.

Á fimmtudag:
Breytileg átt og vætusamt, en snýst í norðan átt með éljum þegar líður á daginn með kólnandi veðri.

Veður á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert