„Allt í einu orðinn að aðalmanni“

Úr héraðsdómi . Verjandi Magnúsar er vinstra meginn á myndinni …
Úr héraðsdómi . Verjandi Magnúsar er vinstra meginn á myndinni og verjandi Bjarna til hægri. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Magnús Arnar Arngrímsson, einn hinna ákærðu í Aurum-málinu, var „allt í einu orðinn að aðalmanni þrátt fyrir takmarkaða aðkomu að málinu sem lánanefndarmaður“. Þetta sagði verjandi hans í málsvarnarræðu sinni við lok aðalmeðferðar á fimmtudaginn. Sagði verjandinn saksóknara ekki styðjast við staðreyndir í málinu, heldur reyna að fá fram sakfellingu á huglægu viðmiði.

Úr fjársvikamáli í umboðssvikamál

Helgi Birgisson, verjandi Magnúsar, sagði að við rannsókn málsins hefðu engar rannsóknaaðgerðir beinst að Magnúsi. Hvorki hleranir né húsleitir. Málið hefði verið skoðað sem fjársvikamál sem ætti rætur sínar að rekja til atriða sem komu upp hjá bankanum löngu áður en Magnús varð yfirmaður hjá bankanum. Hann hefði fyrst tekið við stöðu forstöðumanns fyrirtækjasviðs í maí 2008. Sagði hann að þegar saksóknari hefði áttað sig á því að „enginn hefði verið blekktur“ hefði rannsóknin þróast í að skoða meint umboðssvik.

Með þessari breytingu hefði Magnús allt í einu orðið að aðalmanni í rannsókninni þar sem hann var einn þeirra sem sátu í áhættunefnd Glitnis á þessum tíma. Gagnrýndi Helgi saksóknara og rannsókn málsins og sagði ljóst að ætlunin væri að finna einhverja sök, hvernig sem farið væri að því.

Vilja sakfella á huglægum viðmiðum

Því næst fór Helgi yfir þau atriði sem þyrfti að uppfylla til að vera dæmdur fyrir umboðssvik samkvæmt 249. grein almennra hegningarlaga. Að viðkomandi væri í aðstöðu sem hægt væri að misnota, að hann hefði gert það og að komið hefði til verulegs fjártjóns eða fjártjónshættu. Sagði Helgi að í fyrsta lagi hefðu ekki lánareglur bankans verið brotnar og þá hefðu aðrir nefndarmenn áhættunefndar samþykkt lánið. Að lokum hefði ráðstöfunin skilað bankanum betri veðum en þau höfðu verið fyrir og því hefði ekki verið um verulega fjártjónshættu að ræða, jafnvel þótt bankinn hefði að endingu tapað fjármununum.

„Þeir vilja fella sök á skjólstæðing minn með að beita huglægu viðmiði,“ sagði Helgi um saksóknara og vísað til þess mikla fjölda gagna sem væru í málinu og tölvupósta sem hefðu verið sýndir í dómsalnum og ættu að vekja upp hughrif dómara. Sagði hann eins og fleiri verjendur að hér væri verið að höfða til eftirhyggjuskekkju.

Gegnsýrt samfélag hefði ákveðið sekt

Verjandi Bjarna Jóhannessonar, annars ákærða í málinu, sagði þetta þó ekki bara vera eftirhyggjuskekkju, heldur hefði orðið gegnsýrð stemning í samfélaginu. Vísaði hann í samtal sem hann hafði átt við Magnús Leopoldsson, sem sat í gæsluvarðhaldi vegna Geirfinnsmálsins á sínum tíma. Sagði verjandinn, Helgi Sigurðsson, Magnús hafa útskýrt fyrir sér þá staðfestingarhneigð sem hefði verið í kringum Geirfinnsmálið og Helgi taldi eiga við hrunmálin. „Þegar búið er að gegnsýra samfélagið, ákveða að þú sért sekur, þá skipta gögn ekki máli,“ vitnaði hann til Magnúsar.

Sagði Helgi að þá eins og nú hefðu verið til lýðskrumarar sem sköpuðu þá stemningu sem þyrfti til að sakfella fólk án þess að sannanir lægju fyrir. Sagði hann vettvang þessara aðila nú miklu stærri eftir aukið aðgengi t.d. með netmiðlum og samskiptamiðlum.

„Tilviljun að lykilgögn rötuðu inn í málið“

Eins og aðrir verjendur málsins sagði Helgi að sakborningar gætu illa treyst ákæruvaldinu og að það væri „tilviljun að lykilgögn rötuðu inn í málið.“ Bætti hann því við að ákæruvaldið hefði í þessu máli sýnt að það færi ekki eftir leikreglum og því væri ekki víst að haldið hefði verið eftir öðrum gögnum sem kæmu vörninni vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka