„Óheiðarlegur og þú ert valdníðingur“

Verjendur og saksóknari í Aurum-málinu.
Verjendur og saksóknari í Aurum-málinu. mbl.is/Árni Sæberg

Í fjölmörgum hrunmálum sem farið hafa fyrir dómstóla má skynja mikla reiði og gremju ákærðu gagnvart ákæruvaldinu, enda hafa allir lýst sig saklausa af ákærum sem embætti héraðssaksóknara, sem áður hét sérstakur saksóknari, hefur sett fram. Í Aurum-málinu sem rekið var í annað skiptið fyrir héraðsdómi í vikunni mátti greina talsverða gremju verjenda og ákærðu í málinu sem töldu saksóknara hafa viljandi leynt mikilvægum gögnum að þeirra mati. kristallaðist þessi gremja hvað best í málflutningsræðu verjanda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar þegar hann fór yfir fjölmörg atriði sem hann taldi ekki í lagi í tengslum við rannsókn saksóknara. Þá sagði Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, saksóknara vera óheiðarlegan og valdníðing.

Kapp á sakfellingu og kapp á árangur en ekki að fá fram sannleikann

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, sagði í ræðu sinni að upphaflega hefði Aurum-málið verið rannsakað sem fjársvikamál en eftir að ekkert fannst varðandi það meinta brot hefði því verið breytt í umboðssvikamál. Gagnrýndi hann að málið hefð ekki verið lagt niður þá og að rannsókn saksóknara beindist aðeins að því að reyna að fá einhvern sakfelldan, alveg sama hvernig væri farið að því. „Það er kapp við að ná fram sakfellingu og kapp við að ná fram árangri,“ sagði Gestur og bætti við að það skorti aftur á móti kapp við að fá fram sannleikann.

Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson
Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson Eggert Jóhannesson

Ekki refsivert að vera skuggastjórnandi

Jón Ásgeir er ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að hafa haft áhrif á stjórnendur bankans við lánveitingu til félaga viðskiptafélaga hans sem síðar greiddu Jóni Ásgeiri fjármuni. Sagði Gestur ákæruna byggjast á því að Jón Ásgeir hefði verið einhvers konar skuggastjórnandi. „Því er mótmælt. En líka bent á að það er ekki refsivert að vera það sem kallað er skuggastjórnandi á Íslandi,“ sagði Gestur.

Gestur gerði það einnig að umtalsefni að tveir lögreglumenn hefðu stjórnað rannsókninni gegn Jóni Ásgeiri í þessu máli sem einnig hefðu komið að rannsókn gegn Jóni undanfarin 13 ár meðan hann hefur verið rannsakaður í svokölluðum Baugsmálum. Sagði hann þetta ekki eðlilegt og þarna væru allar líkur á staðfestingarhneigð hjá lögreglumönnunum þar sem leitað væri að gögnum sem gætu mögulega sýnt fram á sekt, en ekkert gert til að skoða gögn sem bentu í hina áttina.

Skilur ekki að saksóknari hafi ekki rétt upp hvíta flaggið

Gagnrýndi hann sérstaklega að lögreglan hefði tekið á móti skjali árið 2011 sem nefnt hefur verið Damas verðmatið, en að ekki hafi verið minnst á það í ákæru eða sett inn í gögn málsins. Hafa verjendur í málinu sagt þetta eitt af mikilvægari gögnum málsins fyrir vörnina og kom það inn í málið á seinni stigum að ósk verjenda. Sagði Gestur í raun ótrúlegt að saksóknari hefði ekki „rétt upp hvíta flaggið og beðist afsökunar,“ þegar þeir hefðu uppgötvað að þetta skjal hefði legið fyrir.

Eftir ræðu Gests var gert hlé og stóðu þá flestir í salnum upp og fóru úr salnum. Ingibjörg, eiginkona Jóns Ásgeirs, kom þó fljótlega inn aftur og gekk að Ólafi Haukssyni, saksóknara málsins, og sagði: „Vil bara segja eitt Ólafur. Þú ert óheiðarlegur og þú ert valdníðingur.“ Eftir þetta fóru bæði hún og Jón Ásgeir úr dómshúsinu, en aðeins var eftir ein ræða verjenda.

Dómur á næstu fjórum vikum

Dómurinn hefur nú fjórar vikur til að kveða upp dóminn. Þó eru fordæmi fyrir því að sá tími sé lengdur um nokkrar vikur í viðamestu málunum. Ekki er þó víst að það þurfi í þessu máli.

Aurum-málið er nú í annað sinn fyrir héraðsdómi.
Aurum-málið er nú í annað sinn fyrir héraðsdómi. mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka