Samfylkingin mun þurfa að ráðast í uppsagnir á starfsfólki til að koma til móts við lægri fjárframlög frá ríkinu. Þetta staðfestir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is.
Framkvæmdastjórn kom saman á fundi í hádeginu til að ræða stöðu flokksins að loknum kosningum.
„Okkur fannst rétt að hittast og fara yfir allar þær fjárhagslegu skuldbindingar sem flokkurinn hefur, alla útgjaldaliði og hvar við getum skorið niður,“ sagði Heiða.
Samfylkingin fékk 5,7 prósenta fylgi í alþingiskosningunum á laugardaginn en 12,9% í alþingiskosningunum árið 2013. Fylgistapið hefur í för með sér talsverða lækkun á fjárframlögum frá ríkinu til flokksins.
Frétt mbl.is: Oddný hættir sem formaður
„Þetta er náttúrlega mikið áfall fyrir flokkinn, en við tökum niðurstöður kosninganna alvarlega og vinnum úr þeim. Það er ekkert annað að gera. Við sjáum fram á minni fjárframlög frá ríkinu og verðum þá þeim mun öflugri grasrótarflokkur, það er mikið af flottu fólki hérna sem mun einfaldlega leggja meira á sig.“
Þrír starfsmenn hafa til þessa starfað fyrir flokkinn, í þremur stöðugildum að sögn Heiðu. Spurð hvort skipta þurfi um húsakost svaraði hún að allra leiða yrði leitað til að sníða stakk eftir vexti.
„Það er verið að fara í gegnum allar fjárhagslegar skuldbindingar og við erum að minnka við okkur í takt við fylgið. Við munum leita leiða til að aðlaga það starfseminni.“