Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mun funda með Sigurði Inga Jóhannssyni , formanni Framsóknarflokksins, í ráðherrabústaðnum klukkan 17 í dag.
Þetta staðfesti Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna, við mbl.is.
Sigurður Ingi verður fyrsti formaðurinn sem Bjarni fundar með eftir að hann fékk umboð frá forseta Íslands í morgun til stjórnarmyndunar.
Frétt mbl.is: Bjarni Benediktsson fær umboðið
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sitja í ríkisstjórn, sem mun starfa þangað til ný stjórn verður mynduð.
Ekkert hefur verið ákveðið varðandi fundarhöld Bjarna með öðrum formönnum þingflokka í dag.
Eftir þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins í Valhöll sagði Bjarni að ólíklegt væri að hann næði að ræða við formenn allra flokkanna sem fengu þingmenn kjörna í dag. Bjóst hann við því að ræða við fleiri formenn á morgun og næstu daga.
Frétt mbl.is: Ólíklegt að Bjarni hitti alla í dag
Bjarni var spurður út í meirihlutaviðræður og líklegustu ríkisstjórn á Bessastöðum í morgun, meðal annars hvort hann myndi skoða stjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Það yrði 32 manna stjórn, sem er minnsti mögulegi meirihluti. Sagði hann það augljóslega einn möguleika en að það væri mjög knappur meirihluti.