Beðið er niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli fimm ára drengs sem norskur dómstóll fól í umsjá barnaverndaryfirvalda í Noregi. Forsjá var dæmd af móðurinni, Elvu Christinu, af norskum dómstól og Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði, á grundvelli Haag-samningsins frá 1980, að barnaverndarnefnd í Kristiansand í Noregi hefði heimild til að fjarlægja drenginn úr umsjá móður sinnar hér á landi og flytja hann til Noregs í fóstur þar sem móðirin bjó.
„Ég býst við að niðurstaða Hæstaréttar muni liggja fyrir á næstu dögum eða vikum,“ segir Oddgeir Einarsson, lögmaður móður drengsins, en hann segir málið snúast um túlkun á Haag-samningnum og íslenskum lögum.
Haag-samningurinn kveður á um að mál barns sé rekið í því landi þar sem barnið er búsett fyrir brottnám en það var amma drengsins, Helena Brynjólfsdóttir, sem flúði með drenginn frá Noregi til Íslands.
Því úrskurða norskir dómstólar um örlög drengsins ef Haag samningurinn gildir um þetta einstaka mál líkt og niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur kveður á um.
Fylgja ekki eigin lögum
Helena segir norsk stjórnvöld ekki fylgja eigin lögum og því hafi ekki verið neitt annað í stöðunni en að koma með drenginn til Íslands.
„Málið hefst vegna neyslu móður drengsins í Noregi en samkvæmt norskum lögum á að byrja á skammtímavistun á barni í slíkum tilvikum og gefa fólki færi á að taka á sínum málum. Það var ekki gert heldur barnið úrskurðað í vistun hjá fósturforeldrum til 18 ára aldurs,“ segir Helena en hún og föðuramma drengsins óskuðu eftir því að fá umsjón hans en án árangurs.
„Lögin gera ráð fyrir því að fyrst sé leitað til ættingja barns áður en því er komið í fóstur. Ég, föðuramma hans og móðursystir fórum allar fram á að fá forræði hans en var synjað.“
Fjöldi sambærilegra mála hefur komið upp í Noregi að sögn Helenu en norsk barnaverndaryfirvöld hafa hag af því að koma börnum í fóstur.
„Ólíkt því fyrirkomulagi sem er hér á landi fá barnaverndaryfirvöld í Noregi aukið fjármagn frá norskum stjórnvöldum þegar börnum er komið í fóstur. Lögin í Noregi eru sambærileg íslensku lögunum og barnaverndaryfirvöld hér á landi sjá enga ástæðu til að taka drenginn af okkur.“
Barnaverndaryfirvöld í Kristiansand í Noregi vilja ekki tjá sig um einstaka mál og ekki fengust upplýsingar frá þeim um almenna málsmeðferð þar í landi. Þá fengust engin svör um það hvort sérstakar greiðslur fylgdu því að koma börnum í fóstur.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu hér á landi, segir þetta flókið mál og að Barnaverndarstofa hafi þegar haft samband við barnaverndaryfirvöld í Kristiansand.
„Ég get auðvitað ekki tjáð mig efnislega um þetta mál öðruvísi en að segja að þetta er flókið. Það þarf að leysa úr ýmsum lagatæknilegum atriðum. Það hjálpar okkur þó að löggjöfin er sambærileg í báðum löndum.“
Bragi segir að þótt viðræður séu hafnar milli stofnananna hér á landi og í Noregi hafi þær ekki mikið vægi meðan beðið er niðurstöðu Hæstaréttar í málinu.