Þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins lauk í Valhöll um tvöleytið, en fundurinn var haldinn í kjölfar ákvörðunar forseta Íslands um að veita Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, umboð til stjórnarmyndunar.
Frétt mbl.is: Sjálfstæðismenn funda í Valhöll
„Við vorum að ræða stöðuna og leggja mat á hana. Við vorum að ræða framhaldið og áherslur í þingflokknum varðandi næsta kjörtímabil. Almennt voru menn á því að við þyrftum að beina sjónum okkar að verkefnunum sem biðu næstu ríkisstjórnar,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is eftir fundinn.
Hann sagði að ekkert hefði verið ákveðið á fundinum varðandi stjórnarmyndun. „Það liggur fyrir að ég mun heyra í formönnum flokkanna. Mér finnst ólíklegt að ég nái að hitta alla í dag en það verður þá kannski eitthvað á morgun og næstu daga.“