Erfiðleikar sem tengjast húsnæðismálum eru sem rauður þráður í nýrri skýrslu Rauða krossins um hagi lakast settu íbúa Reykjavíkur. Þórir Guðmundsson, forstöðumaður hans í Reykjavík, segir húsnæðismál auka vanda þeirra sem eigi við vandamál að stríða fyrir.
Í skýrslunni, sem nefnist „Fólkið í skugganum“, kemur fram að hóparnir sem fjallað er um í henni eigi það sameiginlegt að eiga í alvarlegum húsnæðisvanda. Sá þáttur brenni heitast á fólki, sama hvaðan það kemur og hverjar aðstæður þess eru að öðru leyti.
„Ógnvænlegur húsnæðisskortur“ magni upp erfiðar aðstæður berskjaldaðs fólks í borginni. Þórir segir að stærsti útgjaldapóstur margra sem leiti til Rauða krossins í borginni sé húsnæði.
Frétt Mbl.is: Hundruð barna í fátæktargildru
„Húsnæðismál auka á vanda þeirra sem eru í vanda fyrir og spilar svolítið stórt hlutverk þar. Þetta á ekki bara við um mjög jaðarsetta hópa eins og fólk með fíknivanda og geðraskanir heldur finnum við mjög að húsnæðisvandi hrjáir margt fólk sem leitar til okkar sem hefur orðið fyrir skyndilegu áfalli eins og sjúkdómum eða slysi. Margir eiga í miklu basli við að borga húsaleiguna eða, ef þeir missa húsnæði, að finna nýtt sem þeir hafa efni á,“ segir Þórir.
Sérstök athygli er vakin á aðstöðumun útlendinga sem koma hingað til lands sem svonefndir kvótaflóttamenn annars vegar og svo hinna sem fara í gegnum hælisleitendakerfið hins vegar. Kvótaflóttamönnum er tryggt húsnæði í eitt ár eftir komuna en Þórir segir að sá minnihluti hælisleitenda sem fái dvalarleyfi lendi hins vegar í miklum erfiðleikum við að finna sér fyrsta húsnæði.
Fyrst og fremst sé erfitt fyrir þetta fólk sem talar enga íslensku og jafnvel litla ensku að finna húsnæði. Þórir bendir einnig á að eftir að hælisleitendur fái dvalarleyfi hafi þeir þrjár vikur áður en þeir þurfi að yfirgefa húsnæði Útlendingastofnunar. Það taki um það bil jafnlangan tíma fyrir þá að fá úthlutað kennitölu.
„Á sama tíma er klukkan byrjuð að tifa. Eftir um það bil þrjár vikur þarft þú bara að fara út. Það eru dæmi um að fólk hafi þurft að leita í gistiskýli fyrir heimilislausa. Stuðningurinn við fyrstu skrefin í samfélaginu er allt of lítill,“ segir hann.
Rauði krossinn í Reykjavík hefur haft opið hús fyrir flóttamenn og aðra innflytjendur til að veita þeim alhliða aðstoð, meðal annars að hjálpa þeim að finna húsnæði.
„Staðreyndin er sú að þessa tíu mánuði sem opið hús hefur verið starfandi er það nánast eingöngu neyðaraðstoð við að finna þak yfir höfuðið svo fólk endi ekki einfaldlega á götunni,“ segir Þórir.
Margir hópar sem hvað lakast standa í borginni eru sérstaklega áberandi í Efra-Breiðholti. Í skýrslunni kemur fram að fjórði hver íbúi þar sé af erlendum uppruna og sé það fólk oft í láglaunastörfum og barnmargt. Fleiri fatlaðir íbúar séu í hverfinu en öðrum, fleiri ungar einstæðar mæður á fjárhagsstyrk, fleira fólk með geðraskanir en annars staðar, menntunarstig sé lægra og þar séu flestir leigjendur í félagslegu húsnæði með börn undir 18 ára aldri.
Þórir segir að orsaka þess að þessir hópar safnist saman að svo miklu leyti í einu hverfi borgarinnar hafi ekki verið leitað sérstaklega.
„Maður getur ímyndað sér að það kunni að vera vegna þess að húsnæði sé ódýrara,“ segir Þórir.
Skýrslan hefur þegar verið kynnt borgaryfirvöldum, en Þórir segir að fulltrúar Rauða krossins og velferðarsviðs borgarinnar hafi átt góðan fund í gær. Þar hafi komið fram vilji til þess að koma til móts við það sem kemur fram í skýrslunni um hvert þurfi að beina athyglinni.
Þórir segir að Reykjavíkurborg sé að sinna því fólki sem fjallað er um í skýrslunni á ýmsan hátt. Til skoðunar sé nú hvort Rauði krossinn geti með sjálfboðastarfi sínu bætt við störf borgarinnar til að ná enn meiri árangri.
„Margt af því sem við erum að gera er rétt en við þurfum að efla það mjög,“ segir Þórir og nefnir sem dæmi skaðaminnkandi úrræði Rauða krossins fyrir sprautufíkla sem nefnist Frú Ragnheiður, sem hægt væri að efla enn frekar.
Ekki hafi verið leitað að sökudólgum í skýrslunni heldur hafi við gerð hennar verið leitast eftir að kortleggja stöðuna til að hægt væri að bregðast betur við ástandinu. Þórir segir að þegar litið sé yfir stöðuna yfir allt landið missi menn gjarnan af því sem einkenni stórar borgir.
„Mörg vandamálin í Reykjavík eru vandamál stórborga. Það eru vandamál fólks með fíknivanda, vandamál með heimilisleysi, vandamál fólks með geðraskanir. Fólk sem þarf á þjónustu að halda leitar eðlilega í stærri borgir og það er ekki nema ein stærri borg á Íslandi og það er Reykjavík. Ein helsta ástæðan fyrir því að í Reykjavík safnast saman vandamál er að hér fær fólk þjónustu sem eru kannski ekki burðir til annars staðar að veita,“ segir Þórir.