Laufey Rún Ketilsdóttir,
„Það eru dæmi um að Alþingi hafi gripið inn í launaþróun hjá þeim hópum sem falla undir valdsvið kjaradóms og kjaranefndar áður og nú kjararáðs en við höfum ekki skýr dæmi eða fordæmi sem væru til þess fallin að svara því hversu langt mætti ganga í þessu tilviki.“
Þetta segir Trausti Fannar Valsson, dósent í stjórnsýslurétti við lagadeild Háskóla Íslands, spurður hvort Alþingi geti breytt ákvörðun kjararáðs um launahækkun forseta Íslands, þingmanna og ráðherra frá 29. október síðastliðinn.
Ákvörðunin hefur sætt gagnrýni frá því hún var kynnt og hafa verkalýðsleiðtogar meðal annars frá ASÍ og VR stigið fram og krafist þess að Alþingi afturkalli ákvörðunina því hún brjóti á bak aftur sameiginlega launastefnu sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sæst á.
Ákvörðunin kveður á um að þingfararkaup skuli nema 1.101.194 krónum á mánuði og laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi skuli vera 2.021.825 krónur á mánuði. Laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi verði 1.826.273 krónur á mánuði, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.