Hvorki auðgunarásetningur né fjártjónshætta

Dómur féll í Hérðasdómi Reykjaness í morgun.
Dómur féll í Hérðasdómi Reykjaness í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, lýsir yfir mikilli ánægju með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness, sem sýknaði hann í dag af ákæru um umboðsvik. Geirmundur telur niðurstöðuna að öllu leyti í samræmi við gögn og staðreyndir málsins.

Þetta segir Grímur Sigurðsson, verjandi Geirmundar, í skriflegu svari til mbl.is. Ekki liggur fyrir hvort ákæruvaldið muni áfrýja dómnum.

Grímur segir enn fremur að dómurinn slái því föstu að Geirmundur hafi aldrei haft ásetning til að fara gegn hagsmunum sparisjóðsins heldur hafi allar ákvarðanir hans verið teknar með hagsmuni sparisjóðsins að leiðarljósi.

„Í fyrri ákæruliðnum, tengdum lánveitingu til Duggs, er staðfest að ráðstöfunin fól eingöngu í sér efndir á skuldbindingum sem sparisjóðurinn hafði áður stofnað til. Sparisjóðsstjórinn getur því ekki hafa framið lögbrot með því að efna þær skuldbindingar. Í síðari ákæruliðnum, tengdum framsali stofnfjárbréfa til Fossvogshyls, er staðfest að sparisjóðurinn hafði ávallt fullt forræði yfir félaginu Fossvogshyl og eignum þess. Þar af leiðandi fólst hvorki auðgunarásetningur né fjártjónshætta fyrir sparisjóðinn í ráðstöfuninni,“ segir Grímur.

Vonar að málinu sé nú lokið

„Geirmundur ól allan sinn starfsaldur hjá sparisjóðnum og þar af í rúm 20 ár sem sparisjóðsstjóri. Allan sinn starfsferil hafði hann hagsmuni sparisjóðsins að leiðarljósi í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Síðustu ár, á meðan þetta mál hefur verið til rannsóknar og saksóknar, hafa verið Geirmundi og fjölskyldu gríðarlega þungbær. Er það von hans að þess máli sé nú lokið,“ segir Grímur enn fremur.

Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur.
Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur. mbl.is/Sverrir

Ákæran gegn Geirmundi var í tveimur köflum, sem tóku báðir til þess að hann hefði gerst sekur um umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga.

Ekki um eiginlega lánveitingu að ræða

Í fyrri kafla ákæru var hann sóttur til saka fyrir slíkt brot með því að hafa misnotað aðstöðu sína sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur og stefnt fé sparisjóðsins í verulega hættu, þegar hann fór út fyrir heimildir til lánveitinga með því að veita einkahlutafélaginu Duggi 100 milljóna króna lán þann 16. júní 2008 í formi yfirdráttar á reikningi félagsins hjá sparisjóðnum, án þess að afstaða lánanefndar sparisjóðsins lægi fyrir, án þess að áhættu- og greiðslumat færi fram og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti. Sama dag var fjárhæðinni ráðstafað inn á annan reikning félagsins hjá sparisjóðnum. Þann 18. júní 2008 var fjárhæðinni ráðstafað inn á reikning Duggs hjá Icebank hf. Sama dag tók Icebank handveð í fyrrgreindum reikningi félagsins hjá bankanum, ásamt allri innistæðu reikningsins eins og hún var á hverjum tíma, fyrir öllum skuldum og skuldbindingum Suðurnesjamanna gagnvart Icebank. Þann 22. september 2008 tilkynnti Icebank um ráðstöfun handveðsettra fjármuna. Var gengið að allri innistæðu Duggs hjá bankanum til greiðslu á skuld Suðurnesjamanna við Icebank. Yfirdráttarlánið var upphaflega veitt til eins mánaðar og var á gjalddaga 16. júlí 2008. Þann 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjárhafafundar sparisjóðsins, vék stjórn sjóðsins frá og skipaði í framhaldinu skilanefnd yfir sparisjóðnum. Ákvörðun FME fól einnig í sér að allar eignir og skuldbindingar sparisjóðsins voru færðar í nýtt félag, Spkef sparisjóð, sem var í eigu Bankasýslu ríkisins. Með ákvörðun 5. mars 2011 tók FME yfir vald stofnfjáreigendafundar Spkef. Ákvörðunin fól í sér að NBI hf. tæki í einu lagi yfir rekstur, eignir og skuldbindingar Spkef. Um var að ræða samruna án skuldaskila. Spkef var því sameinaður NBI með yfirtöku eigna og skulda. NBI, nú Landsbankinn hf., afskrifaði kröfuna í júlí 2015 vegna gjaldþrots Duggs. Ekkert fékkst greitt upp í kröfur bankans í kjölfar gjaldþrotsins og er krafan því Landsbankanum að fullu glötuð, eins og segir í ákæru. 

Varðandi fyrri hluta ákærunnar segir héraðsdómur að ekki hafi verið um eiginlega lánveitingu að ræða þegar yfirdráttarheimildin var stofnuð. Sú ráðstöfun teljist hafa verið liður í efndum af hálfu Sparisjóðsins í Keflavík á tilteknum skuldbindingum sjóðsins gagnvart Suðurnesjamönnum annars vegar og Duggi hins vegar. „Saksókn í málinu og þar með sönnunarfærsla í því hefur ekki verið markaður farvegur til samræmis við þetta,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Enn fremur segir að miðað við þessi atvik hafi þannig ekkert kallað á það í tengslum við yfirdráttarheimildina að leitað yrði eftir afstöðu lánanefndar, að áhættu- eða greiðslumat færi fram og að trygginga yrði aflað, svo sem byggt var á í ákæru. Við þetta bætist, gegn eindreginni neitun Geirmundar, að það þyki óvarlegt að telja sannað að hann hafi komið því til leiðar eða stuðlað að því með öðrum hætti að Icebank hafi verið veitt handveð í innistæðu á reikningi Duggs hjá bankanum 18. júní 2008 til tryggingar á skuldum og skuldbindingum Suðurnesjamanna, en án veðsetningarinnar gat bankinn ekki leitað fullnustu í innistæðunni. Því beri að sýkna Geirmund af sakargiftum samkvæmt fyrri kafla ákæru. 

Engar forsendur um auðgunarásetning

Í seinni kafla ákæru voru Geirmundi gefin að sök umboðssvik með því hafa misnotað aðstöðu sína sem stjórnarformaður dótturfélags sparisjóðsins, einkahlutafélagsins Víka, og valdið félaginu verulegri fjártjónshættu, þegar hann framseldi fyrir hönd einkahlutafélagsins stofnbréf í Sparisjóði Keflavíkur, að verðmæti 683 milljónir króna, frá Víkum til einkahlutafélagsins Fossvogshyls, í lok árs 2007, án þess að nokkur endurgjald kæmi fyrri stofnfjárbréfin. Við framsalið eignaðist Víkur kröfu á Fossvogshyl, sem færði á móti skuld í bókhaldi sínu. Enginn lánasamningur var gerður og ekki gengið frá neinni tryggingu fyrir því að krafan yrði greidd. Samkvæmt skráningu hjá Verðbréfaskráningu Íslands voru stofnfjárbréfin skráð á Fossvogshyl þann 7. mars 2008. Sama dag og umrædd stofnbréf voru skráð á Fossvogshyl var félagið framselt frá Deloitte til sonar ákærða. Í árslok 2009 voru eftirstöðvar kröfunnar, samtals 633 milljónir, færðar í gegnum viðskiptareikning tengdra aðila frá Víkum yfir í sparisjóðinn sem krafa og þar flokkuð á meðal útlána. Lánveitingin var að fullu afskrifuð í bókhaldi sparisjóðsins þann 31. mars 2010, að því er segir í ákærunni.

Varðandi seinni kaflann segir héraðsdómur að ekki sé ástæða til að ætla að fjártjónshætta hafi verið samfara þeirri ráðstöfun sem saksókn taki til. Megi þá einu gilda hvort raunveruleg þörf hafi verið á því að ráðast í hana í ljósi þeirra hagsmuna sem leitast hafi verið við að verja með henni. 

„Að því virtu sem að framan er rakið standa engar forsendur til þess að líta megi svo á að skilyrði 249. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 243. gr. laganna, um auðgunarásetning, sé uppfyllt í málinu. Er ákærði þegar af þeirri ástæðu sýknaður af sakargiftum samkvæmt seinni kafla ákæru,“ segir í dómi héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka