Skiptust á að bjóða í Fell

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. mbl.is/Rax

Skipst var á að bjóða í jörðina Fell við Jökulsárlón á fundi hjá sýslumanninum á Suðurlandi í morgun. Næsthæsta boðið kom frá Einari Birni Einarssyni, eiganda ferðaþjónustufyrirtækisins Jökulsárlóns ehf., og var það  tíu milljónum krónum lægra en það hæsta, eða 1.510 milljónir króna.

Samkvæmt heimildum mbl.is skiptust fulltrúi Einars Björns og félagið Fögrusalir ehf. á að bjóða í jörðina á meðan á fundinum stóð, eða í um tvær klukkustundir. Tíu milljónir voru á milli hvers tilboðs fyrir sig.  

Fyrsta boðið á fundinum var 1.210 milljónir króna en lokatilboðið sem sýslumaðurinn samþykkti var frá Fögrusölum ehf., upp á 1.520 milljónir.

Frétt mbl.is: Tilboði Fögrusala ehf. í Fell tekið

Aðspurður segist Einar Björn ekki vera svekktur yfir því að hafa ekki fengið jörðina en hann var ekki viðstaddur fundinn í morgun. Telur hann að málinu sé lokið af sinni hálfu.

Ósáttir við málsmeðferðina

Hluti landeigenda áskildi sér rétt á fundinum til að bera ákvörðun sýslumanns undir dómstóla. Eitt aðriðið sem sumir landeigendur eru ósáttir við er málsmeðferðin sjálf, þ.e. hvort það séu lagaskilyrði fyrir uppboðinu. Telja þeir að hægt sé að skipta jörðinni með öðrum hætti en hefur verið gert.

Fjöldi bókana frá landeigendum var gerður á fundinum, samkvæmt upplýsingum mbl.is.

Skúli bauð ekki aftur

Ekki er vitað til þess að fjárfestingafélag í eigu Skúla G. Sigfússonar, eiganda veitingahúsakeðjunnar Subway, hafi boðið aftur í jörðina á fundinum. Félagið hafði fyrir fundinn boðið best í Fell, eða 1.170 milljónir króna.

Frétt mbl.is: Skúli í Subway með hæsta tilboð í Fell

Íslenska ríkið hefur frest fram á hádegi 11. nóvember til að nýta sér forkaupsrétt á Felli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert