Rauði krossinn í Reykjavík hefur beðið Gunnar Einarsson, bæjarstjóra í Garðabæ, afsökunar á staðhæfingu sem kom fram í skýrslu deildarinnar um aðstæður aðþrengds fólks í Reykjavík.
„Í skýrslunni er haft eftir ónafngreindum viðmælanda að Garðabær eigi íbúðir í Reykjavík sem séu lánaðar fólki svo það fái heimilisfesti í Reykjavík. Þetta er rangt og verður leiðrétt,“ segir í tilkynningu frá Rauða krossinum.
Gunnar hafði sakað Rauða krossinn um rangfærslur í skýrslunni, sem heitir Fólkið í skugganum.
Frétt mbl.is: Húsnæðismál auka vanda bágstaddra
Að sögn Þóris Guðmundssonar, forstöðumanns Rauða krossins í Reykjavík, hafði Gunnar samband við Rauða krossinn og óskaði eftir því að þetta yrði leiðrétt og beðist yrði afsökunar opinberlega á staðhæfingunni.
„Þegar kemur í ljós að þetta er ekki rétt er sjálfsagt og eðlilegt að leiðrétta það. Við mátum það rétt að biðja hann afsökunar og Garðabæ,“ segir Þórir.
„Þetta var tilvitnun innan gæsalappa. Þó að þetta sé haft eftir einhverjum viljum við ekki að þetta sé haft í skýrslunni,“ bætir hann við og segir að staðhæfingin verði tekin þaðan út.