Sendi tvö fjárkúgunarbréf

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hlín Einarsdóttir sendi tvö bréf þar sem þess var krafist að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, og eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, greiddu þeim milljónir króna.

Þetta kemur fram í ákæru á hendur systrunum Hlín og Malín Brand, að því er Stundin greindi frá. 

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. nóvember.

Frétt mbl.is: Hlín og Malín ákærðar

Systurnar voru handteknar af lögreglu í byrjun júní í fyrra þegar þær höfðu í hyggju að nálgast fé sem þær ætluðu að hafa af Sigmundi og Önnu Sigurlaugu sunnan Vallahverfisins í Hafnarfirði.

Við yfirheyrslur játuðu þær að hafa sent þeim bréf.

Í ákærunni kemur fram að Hlín hafi fyrst sett bréf inn um bréfalúguna á heimili Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs, og síðar hafi hún sent nafnlaust bréf til Sigmundar sem var stílað á Önnu Sigurlaugu. Í fyrra bréfinu var krafist 7,5 milljóna króna og í því síðara var upphæðin komin í 8 milljónir. 

Uppfært kl. 15:36

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, staðfestir í samtali við mbl.is að þetta komi fram í ákærunni. Að öðru leyti sé fátt í ákærunni sem ekki hafi komið fram áður en ekki er unnt að láta fjölmiðlum ákæruna í té fyrr eftir helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka