Leikurinn Starborne, sem fyrirtækið Solid Clouds framleiðir um þessar mundir, er stærsti tölvuleikur sem búinn hefur verið til hér á landi frá því Eve Online frá CCP varð til.
Fyrirtækið var stofnað í árslok 2013 og eru nokkrir fyrrverandi starfsmenn CCP í hópi stofnenda. Leikurinn er nú í stórri alþjóðlegri prófun og komu meðal annarra nokkrir erlendir spilarar sérstaklega til landsins til að hitta starfsmenn fyrirtækisins og innlenda spilara til skrafs og ráðagerða.
„Þetta er stór herkænskuleikur. Á hverjum leikjaþjóni er gert ráð fyrir að 5.000-20.000 spilarar spili saman og byggi upp herveldi sín með efnahagskerfi og herafla og myndi bandalög. Svo verða margir leikjaþjónar í gangi, þannig að heildarfjöldi spilara getur skipt hundruðum þúsunda,“ segir Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri Solid Clouds, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Hann segir markaðinn sem leiknum er stefnt inn á vera stóran og því eftir miklu að slægjast.