„Þetta er maraþon, þetta reynir á úthald,“ segir Reynir Hjálmarsson, formaður Skraflfélags Íslands, í samtali við mbl.is. Um átján manns etja kappi á Íslandsmótinu í skrafli sem hófst í morgun en að sögn Reynis er fagmennskan í keppninni alltaf að færast í aukana.
Frétt mbl.is: Keppt í skrafli um helgina
Leiknar voru fimm umferðir í dag og aðrar fimm verða leiknar á morgun en keppendur mætast í einvígi. „Fyrstu tvær umferðirnar eru þannig að það er bara valið af handahófi og svo erum við með tölvuforrit sem reiknar það út hverjir eru á svipuðum slóðum,“ segir Reynir, en þeir keppendur sem eru svipaðir að styrkleika eigast við að loknum fyrstu tveimur umferðunum.
„Þetta verður alltaf meira og meira pró, þetta var svona frekar óformlegt fyrst,“ segir Reynir, en þetta er í fjórða sinn sem keppnin fer fram. „Þetta eru bara þeir sem eru bestir í skrafli á Íslandi.“
Nú er jafnframt í fyrsta sinn leikið samkvæmt nýjum stafgildum en gildi og fjöldi einstakra stafa í leiknum eiga nú að endurspegla tungumálið fullkomlega að sögn Reynis. „Þannig að núna snýst þetta minna um heppni og meira um hæfni heldur en áður.“