Um fjörutíu björgunarsveitarmenn hafa leitað að tveimur rjúpnaskyttum á sunnanverðu Snæfellsnesi í nótt. Leitin hefur ekki borið árangur. Þyrla Landhelgisgæsla aðstoðaði við leitina frá miðnætti til klukkan þrjú í nótt. Leitaraðstæður eru erfiðar, en á svæðinu er rok og rigning.
Einar Þór Strand, sem er í aðgerðastjórn Landsbjargar á Snæfellsnesi, segir í samtali við mbl.is að von sé á auka mannskap til að taka þátt í leitinni. Búist er við að um það bil 100 manns muni taka þátt í leitinni í dag og auk þess sem þyrla Gæslunnar flýgur aftur yfir svæðið.
Frétt mbl.is: Leitað að rjúpnaskyttum á Snæfellsnesi
Björgunarsveitir á Snæfellsnesi og Vesturlandi voru kallaðar út um klukkan 22.30 í gærkvöldi til leitar að skyttunum sem héldu til veiða frá Slitvindastöðum í Staðarsveit í gærmorgun.
Að sögn Einars gerðu aðstandendur mannanna viðvart um að þeir hefðu ekki skilað sér til baka. Ekki hefur náðst í mennina í gegnum síma, en talið er að símarnir séu rafmangslausir. Þyrla Gæslunnar flaug yfir svæðið í nótt en þyrlan er með sérstakan útbúnað sem getur numið farsímamerki. Sú leit skilaði hins vegar ekki árangri.
Menn vonast nú til að leitin fari að skila árangri þegar birta tekur.