Erfitt fjallendi og hættulegar aðstæður

Mennirnir fundust ofarlega í hlíðum Gráborgar, ofan Hestdala sem ganga …
Mennirnir fundust ofarlega í hlíðum Gráborgar, ofan Hestdala sem ganga inn af Kolgrafafirði rétt fyrir klukkan 14 í dag. mbl.is/Alfons Finnsson

Um tvö hundruð manns tóku þátt í leitinni að rjúpnaskyttunum tveimur sem leitað var á sunnanverðu Snæfellsnesi frá klukkan 22.30 í gærkvöldi. Mennirnir fundust ofarlega í hlíðum Gráborgar, ofan Hestdala sem ganga inn af Kolgrafafirði rétt fyrir klukkan 14 í dag.

Að sögn Önnu Filbert í aðgerðarstjórn björgunarsveitanna er enn einhver óþreyttur mannskapur í viðbragðsstöðu ef veita þarf hjálp við að flytja mennina niður af fjallinu. Leitin af skyttunum er ein sú umfangsmesta sem gerð hefur verið á þessu svæði en björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Suðvesturlandi, Vesturlandi og allt norður í Skagafjörð voru kallaðar út til að aðstoða við leitina.

Leitin hefur verið erfið þar sem um erfitt fjallendi er …
Leitin hefur verið erfið þar sem um erfitt fjallendi er að ræða og hættulegar aðstæður. mbl.is/Alfons Finnsson

Leitin hefur verið erfið þar sem um erfitt fjallendi er að ræða og hættulegar aðstæður. Þá hefur veðrið á svæðinu verið afar slæmt, mikil úrkoma og hvassviðri. Þyrla Landhelgisgæslunnar var við leit í nótt en einnig hefur verið notast við sporhund, víðavangsleitarhund, sexhjól, fjórhjól og svo aðallega göngufólk. „Þetta er þannig svæði að það er ekki mikið hægt að nota tæki,“ segir Anna.

Eins og áður segir eru björgunarsveitarmenn komnir að rjúpnaskyttunum tveimur en verið er að undirbúa þá og veita þeim leiðsögn fyrir ferðina niður. Anna segir mennina í góðu ástandi miðað við þær aðstæður sem þeir hafa verið í síðastaliðinn sólarhring. „Þeir eru blautir og hraktir en björgunarsveitarmennirnir eru með búnað, skýli og annað til að borða í áður en þeir halda niður á leið.“

Anna segir aðgerðina hafa gengið vel yfir heildina séð en björgunarsveitin fékk aðstoð frá Neyðarlínunni við að staðsetja mennina tvo. „Við fengum aðstoð frá Neyðarlínunni sem var  í sambandi við mennina í stuttan tíma og gat sent staðsetningarskeyti í síma hinna týndu þannig að það gat gefið okkur punkt til að miða leitina við.“

Björgunarsveitarmenn við störf.
Björgunarsveitarmenn við störf. mbl.is/Alfons Finnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert