Björgunarsveitir Landsbjargar á Norðausturlandi hafa verið kallaðar út vegna manns sem er í sjálfheldu í um 200 metra hæð í bjarginu við fossinn Míganda sunnan til í Gunnólfsvíkurfjalli.
Nokkur ísing er í bjarginu og hitastig fer lækkandi, samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörg. Björgunarfólki tókst ekki að komast að manninum fyrir myrkur og hefur þyrla Landhelgisgæslunnar verið kölluð út til leitar og mun m.a. flytja sérhæft fjallabjörgunarfólk á staðinn.
Vonir standa til þess að þyrlan geti lýst upp bjargið og aðstoðað við björgun mannsins.
Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni hefur ekki tekist að finna manninn á þeim stað sem hann telur sig vera á. Veður á vettvangi er sagt ágætt og skyggni nokkuð gott.