Rjúpnaskytturnar sem leitað hefur verið síðan í gærkvöldi fundust heilar á húfi rétt fyrir klukkan 14 í dag. Mennirnir höfðu leitað sér skjóls undan veðrinu ofarlega í hlíðum Gráborgar, ofan Hestdala sem ganga inn af Kolgrafafirði.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Mennirnir eru þokkalega á sig komnir, miðað við aðstæður, en bæði blautir og kaldir. Þeir gerðu björgunarsveitafólki vart við sig með því að blása reglulega í neyðarflautu sem þeir höfðu meðferðis. Eftir að hafa hlúð að mönnunum bíður björgunarsveitafólks það erfiða verkefni að koma þeim til byggða yfir torfarna leið í leiðinlegu veðri.
Alls komu rúmlega 200 manns, björgunarsveitafólk víða af landinu, að leitinni með einum eða öðrum hætti. Björgunarsveitafólk er nú á leið til byggða en gera má ráð fyrir að það taki nokkrar klukkustundir miðað við aðstæður á leitarsvæðinu.