Þyrla Landhelgisgæslunnar selflytur nú björgunarsveitarmenn nær staðnum þar sem maður er í sjálfheldu í um 200 metra hæð í bjarginu við fossinn Míganda sunnan til í Gunnólfsvíkurfjalli á Norðausturlandi. Lögregla og björgunarfólk eru í sambandi við manninn, sem búið er að staðsetja, en erfitt er að komast að honum.
Frétt mbl.is: Maður í sjálfheldu í Gunnólfsvíkurfjalli
Þyrlan er búin að fara fyrstu ferð með mannskap nær staðnum og er nú að ná í björgunarsveitamenn frá Akureyri. Að sögn lögreglunnar á Þórshöfn eru erfiðar aðstæður á svæðinu; myrkur, bratt og erfitt að komast að en veður þokkalegt.
Auk lögreglu og björgunarsveitar á svæðinu koma að aðgerðinni björgunarsveitin á Vopnafirði, undanfarar frá Reykjavík og undanfarar frá björgunarsveitinni Súlum sem eru sérþjálfaðir í fjallabjörgun.
Uppfært kl. 23.39:
Björgunarmenn eru komnir að manninum og freista þess nú að komast upp til hans, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Þórshöfn. Aðstæður eru erfiðar, enda myrkur og bratt.